Færsluflokkur: Bloggar
Lestrarkennsla
14.8.2015
Geta allir lært að lesa? - Þarf að kenna lestur? - Getur enginn lært að lesa án lestrarkennslu?
Lærum við allt sem okkur er kennt og þarf að kenna okkur allt sem við lærum? Eru kennsla og nám tvö sjónarhorn á sama hlutinn? Nei, auðvitað er það ekki svo. Kennsla og nám eru tveir ólíkir hlutir. Það, sem við samþykkjum sem kennslu, þarf ekki endilega að leiða af sér nám. Kennarinn, sem sinnir vinnu sinni, fær greitt fyrir þó svo nemandinn læri ekki neitt.
Allir vita, að börn geta lært að lesa án þess að nokkur kenni þeim lesturinn og einnig það, að börn geta notið lestrarkennslu daglega inni í bekk og oft í viku í sérkennslu, jafnvel árum saman, hjá færustu sérfræðingum, án þess að ná neinum viðunandi tökum á lestrinum.
Þegar nemandinn nær ekki árangri í lestri, þrátt fyrir alla fyrirhöfn færustu sérfræðinga árum saman, hvar gagnreyndum kennsluaðferðum er beitt, vandast málið. Greina verður vandann og leita lausna. Liggur vandinn hjá kennaranum, kennsluaðferð og efni eða nemandanum? Kennarinn er sérmenntaður, kennsluaðferðin er gagnreynd - en nemandinn, er hann þá ekki lesblindur. Sérfræðingar, sem kenna í háskólum og kenna kennurum grunnskólanna, hafa búið til aðferðir eða próf, sem sýna hvað er að þeim nemendum, sem geta ekki lært að lesa með gagnreyndum kennsluaðferðum sem eru þær einu réttu að þeirra mati. Niðurstaðan er gjarnan sú, að nemandinn sé með einhvers konar lesblindu, sem er svo nánar útlistuð.
Ég tel að allir geti lært að lesa og það þurfi ekki einu sinni formlega lestrarkennslu til. Meira en það, trúlegt er að ef engin væri lestrarkennslan þá þekktist ekki fyrirbærið lesblinda. Lesblinda er það kallað þegar lestrarkennsla (sér)menntaðra kennara með gagnreyndum aðferðum skilar nemandanum engum eða óviðunandi árangri í lestri. Nemandinn er þá sagður lesblindur. Árangursleysið alfarið skráð á nemandann, lesblindunni líkt við fatlandi sjúkdóm, sögð meðfædd og jafnvel ættgeng. Sá, sem er fæddur lesblindur, verði það alla ævi en með alls kyns rafrænum hækjum og hátæknibúnaði megi bæta fyrir þennan meðfædda ágalla og gera honum lífið bærilegt. Hann muni þó aldrei standa jafnfætis okkur hinum.
Þetta er skelfilegt - sakfelling fórnarlambsins. Öllu snúið á hvolf. Skili lestrarkennsla ekki árangri er öðru um að kenna en nemandanum. Öll kennsla á að vera leiðsögn til aukinnar þekkingar og skilnings og verður að miðast við forsendur nemandans, að öðrum kosti er tvísýnt um árangur. Á það einnig við um lestrarkennslu. Skili lestrarkennsla ekki ætluðum árangri þá hentar hún ekki nemandanum, svarar ekki þörfum hans. Til þess að ná árangri verður að laga kennsluna að forsendum nemandans, bæði verklag sem og viðfangsefni og gæta þess að hvort tveggja hæfi þroska hans, reynslu, áhuga og ekki síst námsstíl.
Það gengur aldrei upp að kenna öllum nemendum fæddum á sama ári sömu hluti á sama tíma með sömu aðferðum og æltast til þess að allir skili sama árangri! Slíkt verklag má með réttu kalla einelti. Eineltið bitnar á þeim nemendum sem tolla ekki á færibandinu, passa ekki í kassana. Með stöðluðum greinandi - hvað - er - að - nemandanum - prófum framleiðir kerfið sannanir um vanhæfni og ágalla þeirra nemenda, sem með þessu verklagi eru sviknir um kennslu við hæfi.
Þeir sem flýja inn á víðar lendur hugans og dvelja í dagdraumum, eru greindir með athyglisbrest, geti þeir ekki á sér setið og flandri um öðrum til ama eru þeir greindir ofvirkir og þeir, sem ekki ná valdi á lestri á tilteknum tíma með tilteknum aðferðum, eru greindir lesblindir. Eru þetta sagðir meðfæddir kvillar, jafnvel ættgengir og ólæknandi. Ekkert af þessu stenst.
Rétt er að greina má vanlíðan þessara barna og oft óæskilega hegðun. En skýringin er sú að þau fá ekki notið stjórnarskrárvarins réttar síns. Þau fá ekki notið þeirrar verndar og umönnunar sem velferð þeirra krefst né heldur er þeim tryggður réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Samkvæmt 76. grein stjórnarskrárinnar skal í lögum tryggja öllum verndina og réttinn. Væri þessum nemendum tryggður stjórnarskrárvarinn réttur þeirra myndu þeir blómstra. Í stað kvilla fyndust nú hæfileikar og í stað vandamála kæmu afrek. Þeir myndu skara framúr á mörgum sviðum, í íþróttum, listum, í viðskiptum, verklegum athöfnum og mannlegum samskiptum. Þeir væru frumkvöðlar, áræðnir og skapandi athafnamenn, óhræddir að fara út fyrir rammann. Og þeir gætu lesið, lesblinda er nefnilega ekki meðfæddur kvilli. Lesblinda er nafnið sem gefið er niðurstöðu ótímabærrar lestrarkennslu, utan áhugasviðs og með óviðeigandi aðferðum.
Sumarið áður en Ari litli átti að byrja í skólanum sagðist hann ekki geta farið í skóla, hann kynni ekki að lesa. Fortölur foreldra hjálpuðu ekki. Nokkru síðar segir hann þetta verði í lagi, hann væri búinn að læra að lesa. Hvernig fór hann að? Jú, foreldrar hans höfðu lesið Andrés Önd fyrir hann einhver misseri og nú fór hann í Andrésblöðin og tengdi saman athafnir, yrðingar og texta - í þessari röð. Þannig lærði hann að lesa.
Bloggar | Breytt 11.5.2018 kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lesblinda - lesfælni
20.12.2014
Um læsi segir svo á lesvef H.Í.: Lærð færni. Lestur er ekki eðlislægur, meðfæddur eiginleiki, heldur lærð aðgerð og að því leyti gjörólíkur máltökunni. Lestur og ritun eru hugvit mannsins og menning læsis hefur aðeins fylgt hluta mannkynsins í nokkra mannsaldra. Flest börn læra að lesa án sérstakrar fyrirhafnar og sum að því er virðist algjörlega áreynslulaust. Fyrir önnur verður lestrarnámið óyfirstíganleg hindrun og sársaukafull reynsla, sem jafnvel markar alla þeirra skólagöngu og líf í heild. Ef um alvarlega erfiðleika er að ræða getur það haft í för með sér skert lífsgæði fyrir viðkomandi einstakling. Skilningur og þekking á eðli lestrarerfiðleika getur hjálpað, ekki aðeins við að draga úr alvarleika lestrarerfiðleikanna sjálfra, heldur einnig til að draga úr þeim afleiðingum sem slíkir erfiðleikar hafa á lífsgæði fólks. Fyrsta málsgrein tilvitnunarinnar segir okkur, að það að læra að lesa sé ekki hluti af máltökunni. Með máltöku virðist þá átt við það eitt að ná valdi á töluðu máli, að verða talandi, - að tala sé eðlislægur, meðfæddur eiginleiki en ekki lærð aðgerð eða færni. Að lesa sé aftur á móti lærð aðgerð, ekki eðlislægur meðfæddur eiginleiki og lestrartakan því gjörólík málökunni. Máltakan og lestrartakan séu eðlislega ólík ferli. Við fæðumst þá raunar talandi og með vexti og þroska skili færnin sér, án ytri áhrifa eða formlegrar kennslu; aftur á móti sé lesturinn innflutningsvara, við þurfum að læra lestur og er skipulögð lestrarkennsla fyrirferðarmikil á fyrstu árum skólagöngu. Talfærni sem sagt meðfædd en lestur þurfi að læra. Ég held að þetta standist ekki. Ég held að lestur sé eðlislægur, meðfæddur eiginleiki. Skynfærni er meðfædd, það þarf enginn að kenna okkur að sjá eða heyra eða finna sársauka. Við skynjum, upplifum, - lesum umhverfi okkar. Lesturinn gefur skynjunum okkar merkingu, sem við skráum í huga okkar. Þannig söfnum við reynslu og þekkingu. Þekkingin er árangur reynslunnar. Þekkingin, sem við varðveitum í huga okkar, verður síðan viðmið á gildi komandi reynslu. Því meira sem við varðveitum af hagnýtri skynreynslu, þeim mun skynsamari verðum við, - og læsari á lífið. Þannig þjálfum við grundvöll allrar lestrarfærni án kennslu. Með öðrum orðum, lesfærni allra einstaklinga á lífið og umhverfi sitt er þeim meðfædd, sammannlegur eiginleiki óháður tíma og rúmi. Öðru máli gegnir með talmálið. Ef máltakan væri okkur eðlislægur, meðfæddur eiginleiki, þá væri um að ræða tegundareinkenni mannsins og tegundin maður myndi þá tala eitt og sama tungumálið. Önnur málsgrein tilvitnunarinnar hittir naglan á höfuðið. Börn læra almennt að lesa texta með sínu lagi og áreynslulítið. Erfiðleikarnir koma upp þegar um skipulagða, tímasetta lestrarkennslu er að ræða. Þvinguð lestrarkennsla getur mistekist, lestrarnámið orðið óyfirstíganleg hindrun og sársaukafull reynsla, niðurstaðan kölluð lesblinda, sögð meðfædd og ættgeng. Slík reynsla markar alla skólagöngu og skerðir lífsgæði. Niðurlæging, auðmýking og sársauki tengjast texta og lestri, þau tapa og hlíta dómi. Tapararnir forðast texta og lestur, reyna að fela vanmátt sinn og forðast að láta reyna á þennan meinta ágalla. Lesblinda er lestrarfælni fóbía HHFS barna vegna sársaukafullrar, auðmýkjandi lestrarkennslu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mega ráðherrar ljúga?
19.12.2014
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er lesblinda í ættinni?
25.11.2014
Lestrarfræðingar Háskóla Íslands segja okkur að lestur sé ekki eðlislægur, meðfæddur eiginleiki, heldur lærð aðgerð og að því leyti gjórólíkur máltökunni. Með máltöku er þá væntanlega átt við það að verða talandi. Að verða talandi er þá sagður eðlislægur eiginleiki, eitthvað sem ekki þarf að læra, eitthvað sem er okkur áskapað og meðfætt. Lesturinn aftur á móti segja þeir vera lærða aðgerð, færni sem ekki er meðfædd eða eðlislæg, færni sem verður að kenna og læra. Ég held að þetta geti ekki staðist. Máltakan, sem það að verða talandi, getur varla verið eðlislægur meðfæddur eiginleiki en lesturinn einhver eðlislega óskyld aðgerð eða færni sem þarf að læra. Tungumálið er okkur ekki meðfæddur eiginleiki sem við uppgötvum í fyllingu tímans, tungumálið er uppfinning, manngert verkfæri hannað til samskipta. Við tjáum hug okkar með hljóðmyndum, töluðu máli, og varðveitum síðan hljóðmyndirnar með sjónmyndum, rituðu máli. Ég held því fram að máltakan rúmi það að skilja mælt mál og ritað og geta tjáð sig í ræðu og riti. Að verða talandi og það að verða læs séu því tvö stig máltökunnar. Börn læra að tala í samskiptum við fjölskyldu og vini og almennt án formlegrar kennslu. Framvinda námsins ræðst mjög af atgervi nemandans og tekur það börn mislangan tíma að verða altalandi, sem alkunna er og lítt um fengist. Lestrarkennslan er aftur á móti formleg, skipulögð og á höndum sérfræðinga, alvöru kennsla og árangur mældur reglulega. Við lestrarkennslu virðist mun síður tekið mið af atgervi nemandans, mjög lagt upp úr því að ná settum aldurstengdum markmiðum á tilsettum tíma og gangi það ekki eftir er hafin rannsókn á nemandanum og leit að meðfæddum ágöllum, svo sem lesblindu eða athyglisbresti. Tungumálið er sem sagt uppfinning, verkfæri, sem verður til við mannleg samskipti, til mannlegra samskipta og vex og þróast við notkun. Hvað nú ef tungumálið væri mannkyni eðlislægur, meðfæddur eiginleiki, sem vöxtur og þroski kveikti, rétt eins og skynfærni eða kynþroska, myndu þá ekki allir jarðarbúar tala eitt og sama tungumálið? Nei, tungumálið er ekki eðlislægur meðfæddur eiginleiki, það er manngert verkfæri sem finnst í mörg þúsund mismunandi útfærslum. Þjóðerni okkar og málumhverfi ræður því á hvaða tungumáli við verðum talandi og getum við síðan lært fleiri tungumál eftir þörfum. Af nógu er að taka. En hvað veldur því að sumir eiga erfitt með að læra að lesa? Áttu þeir líka erfitt með að læra að tala? Nei, þeir sem sagðir eru lesblindir eru almennt vel máli farnir. Engir erfiðleikar með mælt mál, hljóðun eða hljóðkerfi. Er þá eðlismunur á hlustun og tali annars vegar og lestri og ritun hins vegar, að læra að tala og að læra að lesa? Er lestur þá gjörólíkur máltökunni? Nei, lesturinn er lokakafli máltökunnar en það er eðlismunur á kennsluaðferðum sem almennt tíðkast við talkennsluna annars vegar og lestrarkennsluna hins vegar. Talkennslan er óformleg, tekur mið af þroska nemandans, fer fram á öryggissvæði hans og stjórnast af hlýju, hvatningu og hrósi fjölskyldu og umhverfis; lestrarkennslan er formleg, tekur mið af fæðingardegi nemandans, fer fram utan öryggissvæðisins og stjórnast af kröfum, ögun og aðfinnslum kerfisins. Börnin, sem ná ekki að nýta sér aðferðir lestrarkennslunnar við framandi aðstæður, verða ringluð, hrædd og kvíðin og árangursleysið er kallað lesblinda og sagt meðfæddur, ættgengur og ólæknandi kvilli. Ég held því fram að lesblinda sé ekki meðfædd, ekki ættgeng og ekki ágalli, lesblinda sé nafn yfir afrakstur misheppnaðrar lestrarkennslu. Athyglinni er beint að nemandanum, hvað sé að honum, hvort lesblinda finnist í ættinni í stað þess að líta á framkvæmdina; tíma, (aldur nemandans), staðsetningu, (utan öryggissvæðisins), kennsluaðferðir, (hljóðlestur), kennslugögn, (tvívíð tákn og texta). Við vitum að sumir hugsa í þrívíðum myndum; sjá myndir í huga sér eins og þeir séu að horfa í kringum sig, aðrir hugsa í orðum; tala nánast við sjálfa sig í huganum og stundum heyrum við þá hugsa upphátt. Þeir, sem hugsa í myndum, eiga gjarnan erfitt með að læra lestur með þeim aðferðum, sem almennt eru notaðar í skólum. Hljóðmyndir einstakra tákna, (bókstafa), rugla þá í ríminu, hljóðmyndir orða eru merkingarlausar án tengingar við myndræna reynslu og festast því illa í minni. Viðvarandi árangursleysi og mistök valda vanlíðan og kvíða, brjóta niður sjálfstraust og ekki bætir það úr ef nemandinn fer í sérkennslu 2-3 í viku úr þeim tímum þar sem hann stendur sig annars best. Niðurstaðan af þessu verklagi er sögð meðfædd lesblinda. Eftir 10 ára basl í gegnum grunnskólann er þriðjungur drengja ófær um að lesa sér að gagni. Þeir eru ekki þjakaðir af meðfæddri, ættgengri lesblindu, þeir eru þjakaðir af lesfælni, lesfobíu eftir kvíðann, kvölina, auðmýkinguna og niðurlæginguna sem þeir hafa orðið að þola á þrautagöngu sinni gegnum grunnskólann. Meðfæddir ágallar verða ekki bættir en veitta áverka má græða og lesblindir geta sannarlega lært að lesa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dýrkeypt sóun hæfileika.
8.8.2014
Skólaárið 2011-2012 voru 27,5% íslenskra grunnskólanema í sérkennslu og var lítill munur á milli árganga. Ekki liggja fyrir tölur um heildarkostnað af sérkennslunni utan Reykjavíkur, en þar var hann áætlaður um eitt þúsund og þrjú hundruð milljónir króna, (1.300.287.000,00 kr.), árið 2012.
Má þá ætla kostnað vegna sérkennslu á landinu öllu um 3,9 milljarða á ári.
Sérkennslu virðist einkum ætlað að mæta sértækum námserfiðleikum svo sem lesblindu, athyglisbresti og ofvirkni, en einnig er þar gripið til geðlyfja til að bæta stöðu þeirra sem sagðir eru ofvirkir og/eða með athyglisbrest.
Kostnaður vegna geðlyfja, sem börnum, (og fullorðnum), sem eru sögð vera með athyglisbrest og ofvirkni, eru gefin, fer ört vaxandi og er nú væntanlega um milljarður króna, (hlutur Sjúkratrygginga Íslands).
Árangurinn er ekki ásættanlegur ef um fjórðungur drengja les sér ekki að gagni við lok grunnskóla og æ fleiri þarfnast geðlyfja við athyglisbresti og ofvirkni á fullorðinsaldri.
Lesblinda er ekki meðfædd, ekki sjúkdómur eða óbætanlegur ágalli; lesblindan er eiginlega veittur áverki, afleiðing misheppnaðrar lestrarkennslu.
En það má bæta skaðann, hreinsa sárið, heila meinið og kenna lesturinn með aðferðum sem falla að námsstíl hins lesblinda. Það er sem sagt hægt að leiðrétta lesblinduna.
Með því að leggja lestrarkennsluna frá upphafi að námsstíl og þroska nemenda, er hægt að fyrirbyggja að þeir villist út í lesblindufenið og sitji þar.
Af þeirri fjárhæð sem varið er til sérkennslu má ætla að verulegur hluti fari til lestrarkennslu lesblindra. Með því að leiðrétta áunna lesblindu og fyrirbyggja síðan frekari lesblinduframleiðslu má spara gífurlegar fjárhæðir í sérkennslu. Björgum fyrst þeim, sem eru að ljúka grunnskólanámi, og vinnum síðan frá báðum endum, leiðréttum þá eldri og fyrirbyggjum að yngri börnin lendi í lesblindunni. Þannig má fækka sérkennslunemendum um 70-90% og færa fjármuni úr marvaðatroðslu sérkennslunnar yfir í flugsund og jafnvel dýfingar!
Lífsglöðum, spurulum og skapandi ungmennum á ekki að gefa geðlyf, að undangenginni geðröskunargreiningu, til að auðvelda aðlögun þeirra að samfélagi iðnbyltingarinnar. Þau þurfa virðingu og traust til að skapa það samfélag framtíðarinnar, sem við sjáum ekki fyrir.
Flytjum fjármuni frá sérkennslu til þróunar og umbóta. Komum lesblindum til bjargar, bætum lestrarkennsluna og tryggjum öllum lestrarfærni á þeirra eigin forsendum. Leggjum þannig lesblinduhugtakið af.
Lögum kennsluaðferðir og kennsluhætti að hæfni hvers og eins og gefum öllum kost á að njóta sértækra hæfileika sinna, hvort sem námsstíll þeirra er VHSH eða HHFS (vinsti heila sitja og hlusta eða hægri heila fara og skoða). Þannig má útrýma ofvirknigreiningum og geðlyfjagjöfum fullfrískra barna og unglinga. Ritalín gerir aldrei hægri heila barn að vinstri heila barni, sem betur fer, en getur komið í veg fyrir að hægri heila barn blómstri og njóti einstakra hæfileika sinna.
Sinnum síðan þeim sem sannlega þurfa á sérkennslu að halda vegna greinanlegra fatlana og þeim, sannanlega veiku einstaklingum, sem ofvirknigreiningar og geðlyfjagjafir hafa brugðist og komið í veg fyrir að fengju raunverulega úrbót meina sinna.
Gefum framtíðinni skóla án tapara og skóla án lyfja; skóla sköpunar og lífsgleði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vá í véum?
23.6.2014
Skólabörn eiga stundum erfitt með að læra sporin og finna taktinn í menntavalsinum. Geta þá verið dofin og dreymin eða úthverf og ógnandi skólastarfinu.
Greining á vandanum leiðir gjarnan í ljós að börnin séu haldin athyglisbresti, ADD, eða athyglisbresti með ofvirkni, ADHD. Við slíkum röskunum finnast lyf sem sögð eru virka, eru það geðlyf og er því um geðraskanir að ræða. Algengasta lyfið við þessum röskunum er ritalín, (methylphenidat.)
Finni barnið fyrir depurð, kvíða eða þunglyndi, má bæta þar úr með gleðipillum og hugmyndaflug myndrænt sem hljóðrænt má slá niður með geðklofalyfi!
Það getur ekki verið heilbrigt að sjúkdómsgreina börn sem fljóta ekki fyrirhafnarlítið eftir flæðilínu skólakerfisins og slá síðan á sjálfstæði þeirra, frumkvæði og lífskraft með lamandi blöndu geðlyfja.
Árgangaraðað hlýðnikerfi skyldunámsins brýtur þannig niður frumkvæði og sköpunargleði þeirra nemenda sem illa una einslitri, staðlaðri ítroðslu.
Námsstíll barna er mismunandi. Mörg una almennu uppleggi skólans. Þau hugsa í/með orðum. Öðrum hentar betur myndræn framsetning þau hugsa í myndum. Svo eru þau gjarnan myndræn sem geta ekki hugsað nema að vera á hreyfingu.
Það eru einkum myndræn börn með ríka hreyfiþörf sem eru greind með geðraskanir, (annars mætti ekki gefa þeim geðlyf?), og sett á ritalín.
Meðal þeirra, sem aðhyllast slík vinnubrögð, er því haldið fram að ADHD sé alvarlegur sjúkdómur, enginn geðsjúkdómur sem hrjái börn sé jafn vel rannsakaður og ofvirkni og að meira sé vitað um verkan ritalíns á börn en öll önnur geðlyf sem þeim eru gefin.
Þá er einnig varað við ýmsum sértrúarsöfnuðum og einstaklingum sem ekki séu vandir að virðingu sinni og reyni með lygum, rangfærslum og útúrsnúningi á rannsóknarniðurstöðum að sá vafa um ritalín og verkan þess.
Lyfjafræðin segir okkur aftur á móti, að það sé ekki þekkt hvað valdi ADHD né heldur hvernig methylphenidat og önnur sambærileg lyf verki á sjúkdóminn. Þó sé það vitað að þessi efni leiði til aukinna áhrifa taugaboðefnanna dópamíns, noradrenalíns og serótóníns í miðtaugakerfinu.
ADHD samtökin halda því fram að ADHD sé taugaþroskaröskun, sem komi yfirleitt fram fyrir 7 ára aldur, orsakir séu í flestum tilfellum líffræðilegar og rannsóknir bendi til truflana í boðefnakerfi heila er snýr að stjórn hegðunar.
Samtökin segja ADHD ekki sjúkdóm og því útilokað að lækna, en draga megi úr einkennum og halda í skefjum.
Í Læknablaðinu hefur komið fram, að fjölgun ávísana á methylphenidat á tímabilinu 2003-2012 hafi numið 160% hjá börnum og 480% hjá fullorðnum.
Methylphenidat er sagt mjög hættulegt lyf vegna þeirrar miklu fíknar sem það getur valdið. Það sé misnotað af nokkur hundruð sprautufíklum hér á landi og öðrum hópi sem sé sennilega mun stærri og taki lyfið inn eða í nefið.
Þá er það athyglisvert að árið 2012 nam notkun methylfenidata hér á landi 17,4 skömmtum á dag fyrir hverja 1000 íbúa samanborið við 6,7 í Noregi, 7,0 í Danmörku og 7,7 í Svíþjóð.
Á sama tíma er ritalín orðið vinsælast fíkniefni sprautufíkla á Íslandi!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Betri skóli kostar minna.
14.6.2014
Undanfarin misseri hefur nokkur umræða orðið um sérkennslu í skólum landsins. Vakti það athygli að 27,5% grunnskólanema voru í sérkennslu og var lítill munur á milli árganga. Ekki liggja fyrir tölur um kostnað einstakra sveitarfélaga af sérkennslunni en kostnaður Reykjavíkurborgar af sérkennslu í grunnskólum var áætlaður um eitt þúsund og þrjú hundruð milljónir króna, (1.300.287.000,00 kr.), á skólaárinu.
Heildarfjöldi sérkennslunemenda í grunnskólum borgarinnar var um 3700 og kostnaður á sérkennslunemananda þá að meðaltali um 350 þúsund krónur á ári.
Rætt var um tilgang og árangur sérkennslunnar og þá einkum horft til lestrarfærni nemenda.
Kom fram, að um 23,2% 15 ára drengja og 9% stúlkna gætu ekki lesið sér að gagni við lok grunnskóla.
Ætla má að nemendur, sem ekki geta lesið sér að gagni, njóti sérkennslu og gæti þá ólæs nemandi kostað um 350 þúsund krónur á ári hverju í sérkennslu, eða um 3,5 milljónir á tíu ára skólaferli.
Ríki jöfnuður í skólamálum hér á landi má ætla kostnað vegna sérkennslu á landinu öllu um 3,9 milljarða á ári.
Ljóst er að árangur almennrar lestrarkennslu er óviðunandi og virðist sérkennslan ekki duga til úrbóta þar sem um fjórðungur 15 ára drengja í grunnskólum Reykjavíkur er talinn ófær um að lesa sér að gagni.
Sérkennslu virðist einkum ætlað að mæta sértækum námserfiðleikum svo sem lesblindu, athyglisbresti og ofvirkni, en einnig er þar gripið til lyfja, geðlyfja, til að bæta stöðu þeirra sem sagðir eru ofvirkir og/eða með athyglisbrest.
Kostnaður vegna geðlyfja, sem börnum, (og fullorðnum), sem eru sögð vera með athyglisbrest og ofvirkni, eru gefin, fer ört vaxandi og er nú væntanlega um milljarður króna, (hlutur Sjúkratrygginga Íslands).
Beinn og óbeinn kostnaður ríkis og sveitarfélaga af því að bregðast við meintum námserfiðleikum grunnskólanemenda virðist því orðinn vel á fimmta milljarð króna á ári. Árangurinn getur varla talist ásættanlegur ef um fjórðungur drengja getur ekki lesið sér að gagni við lok grunnskóla og þeim fjölgar sífellt sem þarfnast geðlyfja við athyglisbresti og ofvirkni á fullorðinsaldri.
Lesblinda er ekki meðfædd, ekki sjúkdómur, ekki óbætanlegur ágalli; lesblindan er eiginlega veittur áverki, afleiðing misheppnaðrar lestrarkennslu.
En það er hægt að bæta skaðann, hreinsa sárið, heila meinið og kenna lesturinn með aðferðum sem falla að námsstíl hins "lesblinda." Það er sem sagt hægt að "leiðrétta" lesblinduna.
Mikilvægara er þó, að með því að leggja lestrarkennsluna frá upphafi að námsstíl og þroska nemenda, er hægt að fyrirbyggja að þeir villist út í lesblindufenið og sitji þar fastir.
Hér er því hægt að gjörbreyta lífi "lesblindra" ungmenna og forða þeim yngstu frá feninu og draga um leið úr rekstrarkostnaði grunnskólans.
Af þeirri fjárhæð sem varið er til sérkennslu má ætla að verulegur hluti fari til lestrarkennslu "lesblindra." Með því að leiðrétta áunna lesblindu og fyrirbyggja síðan frekari "lesblinduframleiðslu" má því spara gífurlegar fjárhæðir í sérkennslu og bæta um leið árangur skólastarfs og almennrar kennslu. Eðlilegt væri að bjarga fyrst þeim, sem eru að ljúka grunnskólanámi, og vinna síðan frá báðum endum, leiðrétta þá eldri og fyrirbyggja að yngri börnin lendi í lesblindunni.
Þó mikilvægt sé að draga úr kostnaði er það ekki markmiðið, heldur hitt að gera ungum snillingum skólagönguna ánægjulega og koma þeim heilum og skapandi út í lífið. Það má fækka sérkennslunemendum um 70-90% og færa hundruð, jafnvel þúsundir milljóna úr marvaðatroðslu sérkennslunnar yfir í flugsund og jafnvel dýfingar!
Lífsglöðum, spurulum og skapandi ungmennum þarf ekki að gefa geðlyf, að undangenginni "geðröskunargreiningu," til að auðvelda aðlögun þeirra að samfélagi iðnbyltingarinnar. Þau þurfa virðingu og traust til að skapa það samfélag framtíðarinnar, sem við sjáum ekki fyrir.
Við getum þegar hafist handa. Lækkum framlög til sérkennslu um 2-10%, allt eftir stærð sveitarfélags. Verjum þessum peningum til þróunar og umbóta. Komum lesblindum til bjargar, bætum síðan lestrarkennsluna og tryggjum öllum lestrarfærni á þeim tíma og með þeim aðferðum sem hverjum hentar. Leggjum þannig lesblinduhugtakið af.
Lögum kennsluaðferðir og kennsluhætti að gerð og getu hvers og eins og gefum öllum kost á að njóta sértækra hæfileika sinna, hvort sem námsstíll þeirra er "VHSH" eða "HHFS" (vinsti heila sitja og hlusta eða hægri heila fara og skoða). Þannig má útrýma ofvirknigreiningum og geðlyfjagjöfum fullfrískra barna og unglinga. Ritalín gerir aldrei hægri heila barn að vinstri heila barni en getur komið í veg fyrir að hægri heila barn blómstri og njóti einstakra hæfileika sinna.
Sinnum síðan þeim sem sannarlega þurfa á sérkennslu að halda vegna greinanlegra fatlana og þeim, sannanlega veiku einstaklingum, sem ofvirknigreiningar og geðlyfjagjafir hafa brugðist og komið í veg fyrir að fengju raunverulega úrbót meina sinna.
Á fáum árum getum við breytt grunnskólanum í skóla án tapara og skóla án lyfja, - og sparað milljarða!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Uppeldi eða skólun
26.3.2014
Þroskahraði barna er mjög misjafn er hreyfifærni og máltöku varðar en hefur varla forspárgildi um hæfni fullvaxta einstaklings.
Foreldrar fylgja ekki staðlaðri uppeldisáætlun þar sem öllum börnum eru ætluð sömu verkefni og sama geta í hverri viku eða mánuði talið frá fæðingardegi. Af ástúð og umhyggju virða þau þroska og getu hvers og eins barna sinna, dást að framförum þeirra og afrekum og hvetja þau til frekari dáða.
Á síðustu öld töldu lestrarfræðingar að margir, (og jafnvel flestir), lesblindir ættu það sameiginlegt að hafa aldrei skriðið. Var þá lesblindum á öllum aldri boðið upp á skriðnámskeið sem lið í lesblindumeðferð.
En hvað gera börn sem ekki skríða? Annað af tvennu, þau fara að ganga,(hlaupa yfir skriðið), eða þau sitja og aka sér á rassinum. Í báðum tilfellum eru þau komin í lóðrétta/upprétta stöðu og myndræn skynjun, myndvinnsla og myndhugsun er þá komin á allt annað notkunarstig en hjá þeim, sem ennþá skríða. Myndvinnsla tengist hægra heilahveli, sjónstöðvum heilans, sem verður þá virkara en hjá þeim sem ennþá skríða.
Það virðist fara saman að þeir sem eru þannig fljótir til að virkja sjónstöðvarnar varðveiti betur þann hæfileika að upplifa hugsun í þrívíðum myndum. Drengir una sér oft við tæknileikföng og sýna snilli sína og hugmyndaflug t.d. er þeir föndra með legokubba.
Myndhugsuðir eru gjarnan örvhentir, örfættir og vinstra auga þeirra getur verið það ríkjandi.
Ari hugsar í myndum, er með ríkjandi vinstri virkni, bæði verklag og sjón, getur verið fyrirferðarmikill og truflandi og viðbrögð hans og uppátæki eru öðrum oft á tíðum óskiljanleg.
Bjössi hugsar í orðum, er þægur, hlýðinn og fyrirsjáanlegur, aðhefst ekkert án leyfis og kemur sjaldan á óvart. Allt mannlegt er þeim sameiginlegt, ýmiss konar reynsla og atferli aðskilur þá og einstakir eru þeir sem persónur. Uppeldi þeirra snýr fyrst og fremst að mannlegu eðli, að þroska sammannlega eiginleika, að ala upp góðar manneskjur.
Þegar þeir koma í skólann er fæðingarárið einu upplýsingarnar um þá sem skólinn tekur mið af þegar þeim eru ætluð námsleg viðfangsefni. Öllum fæddum á sama ári er nú ætlað að læra það sama á sama tíma, með sama árangri.
Næstu tíu árin tilheyra þeir flæðilínu skólakerfisins, tolla vonandi á færibandinu og passa í kassana við útskipun.
Í haust hófu um 4500 börn skólagöngu. Að lífaldri er mögulegur eins árs aldursmunur í árganginum, eða 20% og ætla má að í hópnum megi finna allt að 3ja ára mun í almennum þroska þroskamunurinn fer vaxandi og gæti orði 4 til 5 ár við 12 14 ára aldur.
Allir hljóta að sjá að þetta er algerlega galið. Með þessu háttalagi glötum við hæfileikafólki, þeim sem þurfa aldrei að hafa fyrir neinu og læra ekki að nám er vinna. Við höfnum sértækum hæfileikum, bjóðum þeim ekki ögrandi viðfangsefni og ölum á ranghugmyndum nemenda um eigin hæfni.
Í þetta kerfi er innbyggt einelti. Vanmat, auðmýkingar og aðhlátur brýtur fólk niður og hrekur úr námi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er sérkennsla sérkennsla?
25.3.2014
Almenn kennsla leiðir til almennrar menntunar en sérkennsla til öðruvísi menntunar, sérstakrar menntunar. Námsárangur nemenda í almennri kennslu er misjafn, þeir ná misgóðum tökum á námsefninu, sumir sýna jafnvel alls óviðunandi árangur. Um slíka niðurstöðu má aldrei fjalla sem sérkennslu, (sérstaka menntun), eða segja að nemandinn hafi með henni komið sér upp sérkennsluþörf, þ.e. þurfi á sérkennslu, (sérstakri kennslu), að halda til þess að ná viðunandi tökum á almennu námsefni.
Þessi nemandi þarf ekki sérkennslu, hann hefði þurft meiri og betri almenna kennslu en þarfnast nú aðstoðar og endurvinnslu, aukakennslu, hjálpar- eða stuðningskennslu.
Þeir nemendur, sem vegna fötlunar sinnar geta ekki nýtt sér almenna kennslu, eiga rétt til sérstakrar kennslu við sitt hæfi. Það er sérkennsla; önnur markmið, ólíkt námsefni, umgjörð og aðferðir. Sérkennsla er ekki aðferðin til að tryggja ófötluðum nemendum viðunandi árangur í almennu grunnskólanámi.
Sérkennsluþörf.
Einhver skilgreinanleg ástæða veldur því að nemendur eru ófærir um að tileinka sér námsefni almennrar grunnskólakennslu á viðunandi hátt og sér að gagni. Sérstök kennsla, sérkennsla, er þá leiðin til að tryggja þeim þann þroska sem er þeim mögulegur. Þeir njóta jafnréttis í námi þegar þeim er svo mismunað að viðfangsefni séu við þeirra hæfi en ekki þau sömu og annarra. Þannig sjá þeir árangur erfiðis síns, upplifa sigra og öðlast sjálfstraust. Þeir þarfnast sérkennslu vegna fötlunar sinnar og til að tryggja lagalegan rétt þeirra til kennslu ... í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir ... er stuðli að ... alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins ... verður að halda fast við þessa þröngu skilgreiningu hugtaksins sérkennsla.
En framkvæmdin hefur orðið önnur. Allt frá níunda áratugnum er áhrifa grunnskólalaganna fer að gæta, sveigðu stjórnvöld og skólar frá fyrirmælum þeirra, einkum er varðar greiningar sérkennslunemenda.
Er nú svo komið að tæp 30% grunnskólanema eru í sérkennslu og um helmingur þeirra án formlegrar greiningar!
Á níunda áratugnum þótti það óhæfa að ætla 2-3% nemenda sérkennslu, jafnvel þótt greiningar á vanda þeirra lægju fyrir.
Nú eru fötluðu sérkennslubörnin, 3-4 prósentin, kaffærð af fimm til sexföldum fjölda sínum af sérkennslunýbúum, sem ekki eru fatlaðir, en eiga í erfiðleikum í námi og þarfnast hjálpar. Vandi þessara nemenda er annar en þeirra fötluðu. Þeir þarfnast vissulega aðstoðar og öflug aðstoð skilar þeim gjarnan vel áleiðis í námi, en það er ekki sérkennsla.
Ef góður fjórðungur nemenda í almennu grunnskólanámi nær ekki viðunandi árangri, þá er eitthvað að. Skólinn bendir á nemandann; þessi þarfnast sérkennslu. Slík sérkennsla ber jafnan árangur og með því að mæta meintri sérkennsluþörf er henni jafnframt eytt!
Er rétt að aðgreina og stimpla um fjórðung nemenda sem misstíga sig í menntavalsinum?
Hvað með að leita viðeigandi lausna, jafnvel með nýbreytni í skólastarfi?
Við megum ekki stefna framtíð saklausra barna í hættu með því að senda þau í sérkennslu þegar allt sem þau þarfnast er sú almenna kennsla, sem alþingismenn töldu sig tryggja þeim með samþykkt markmiðsgreinar grunnskólalaganna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eðlismunur lífsleikni- og starfsmennta.
13.3.2014
Hlutverk grunnskólans er uppeldi og mótun; að laða fram mannlega eiginleika sem þeir lifna og birtast, þroska þá og móta til hæfileika og færni, einstaklingum og samfélagi til hamingju og heilla. Það má líka orða það svo að hlutverk grunnskólans sé að leiða vaxandi ungviði í sannleikann um mannlegt eðli svo og að kenna og þjálfa félagslega færni, siði og reglur mannlegra samskipta.
Sálar,- uppeldis- og kennslufræðin eiga síðan að svara okkur því, hver fræðsla og viðfangsefni, hvenær og hvernig unnin, megi best tryggja árangur skólastarfsins.
Lífsskeið grunnskólanemandans er skeið vaxtar og þroska, - líkamlega, tilfinningalega, vitsmunalega og félagslega. Með grunnskólalögum skuldbindur samfélagið sig til þess að hlúa að, örva og móta mannlega möguleika hvers og eins. Hlutverk grunnskólans er að sinna þörfum uppvaxandi ungviða, að rækja skyldur samfélagsins við börn og unglinga. Hlutverkið er mannrækt, að búa ungviðinu leikni og færni til þess að ferðast áfallalítið um mannheima og velja sér verkefni, sem hæfa áhuga og getu.
Viðfangsefni grunnskólans er því lífsleikni og þá má líta á lokaskírteini grunnskólans sem eins konar haffærniskírteini á lífsins ólgusjó. En fæstum er það nóg að fljóta menn vilja sigla og ráða för.
Hlutverk framhaldsskólans er annars eðlis, það er að hlusta á raddir samfélags og atvinnulífs og setja þeim kröfur og skilmála um þekkingu og leikni sem vilja sigla og ráða för.
Framhaldsnám skal undirbúa nemendur undir tiltekin störf sem krefjast viðeigandi sérmenntunar.
Einnig má orða það svo, að viðfangsefni skyldunámsins sé lífsleikni en viðfangsefni framhaldsnámsins starfsleikni.
Ég tel grunnskólann líða fyrir það að við viðurkennum ekki eðlismun lífsmennta og starfsmennta. Nú er meginhlutverk grunnskólans, lífsleiknin, orðin sjálfstæð námsgrein. Ekki líst mér á að loka þetta viðfangsefni af sem einangraða námsgrein í grunnskólanum og opna þá jafnvel fyrir enn meiri stýringu framhaldsskólans.
Ég vil halda kröfunni um mannrækt og lífsleikni grunnskólans ofar kröfu framhaldsskólanna um tiltekna þekkingu í einstökum námsgreinum. Til þess að skilja á milli eðlislega óskildra markmiða grunnnáms og framhaldsnáms er ef til vill nauðsynlegt að lengja tímabilið þar á milli frá einu sumri, jafnvel að leggja inn millistig sem verði þá hvort tveggja í senn fullnumun og prófraun lífsleikninnar og undirbúningur sérhæfingar.
Á kerfismáli vildi ég sjá lok skyldunáms á fermingarvori nemandans eða með 8. bekk. Eftir skólaskylduna tæki síðan við þriggja ára frjáls miðskóli, mjög sveigjanlegur, en vel skilgreindur og væri unglingamiðaður legði megináherslu á verk- og listgreinar, félagsþroskun og persónumótun. Skólaskyldan væri þá átta ár en fræðsluskylda stæði þremur árum lengur. Framhaldsskólinn væri síðan þriggja ára skóli.
Sveigjanleiki væri í kerfinu til að ljúka hverju skólastigi fyrir sig á skemmri tíma.
Inntökupróf væru haldin við framhaldsskóla, lokapróf áfanga eftir ástæðum og útskrift ræðst af námshraða nemenda, sem gætu þá hafið háskólanám mun fyrr en verið hefur.
Skyldunámið, grunnskólinn, ætti að vera í umsjá ríkisins, en miðskólinn og framhaldsmenntunin á betur heima í umsjá sveitarfélaga og samtaka þeirra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)