Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014

Lesblinda - lesfælni

Um læsi segir svo á lesvef H.Í.: „Lærð færni. Lestur er ekki eðlislægur, meðfæddur eiginleiki, heldur lærð aðgerð og að því leyti gjörólíkur máltökunni. Lestur og ritun eru hugvit mannsins og menning læsis hefur aðeins fylgt hluta mannkynsins í nokkra mannsaldra. Flest börn læra að lesa án sérstakrar fyrirhafnar og sum að því er virðist algjörlega áreynslulaust. Fyrir önnur verður lestrarnámið óyfirstíganleg hindrun og sársaukafull reynsla, sem jafnvel markar alla þeirra skólagöngu og líf í heild. Ef um alvarlega erfiðleika er að ræða getur það haft í för með sér skert lífsgæði fyrir viðkomandi einstakling. Skilningur og þekking á eðli lestrarerfiðleika getur hjálpað, ekki aðeins við að draga úr alvarleika lestrarerfiðleikanna sjálfra, heldur einnig til að draga úr þeim afleiðingum sem slíkir erfiðleikar hafa á lífsgæði fólks.“ Fyrsta málsgrein tilvitnunarinnar segir okkur, að það að læra að lesa sé ekki hluti af máltökunni. Með máltöku virðist þá átt við það eitt að ná valdi á töluðu máli, að verða talandi, - að tala sé eðlislægur, meðfæddur eiginleiki en ekki lærð aðgerð eða færni. Að lesa sé aftur á móti lærð aðgerð, ekki eðlislægur meðfæddur eiginleiki og lestrartakan því gjörólík málökunni. Máltakan og lestrartakan séu eðlislega ólík ferli. Við fæðumst þá raunar talandi og með vexti og þroska skili færnin sér, án ytri áhrifa eða formlegrar kennslu; aftur á móti sé lesturinn „innflutningsvara,“ við þurfum að læra lestur og er skipulögð lestrarkennsla fyrirferðarmikil á fyrstu árum skólagöngu. Talfærni sem sagt meðfædd en lestur þurfi að læra. Ég held að þetta standist ekki. Ég held að lestur sé eðlislægur, meðfæddur eiginleiki. Skynfærni er meðfædd, það þarf enginn að kenna okkur að sjá eða heyra eða finna sársauka. Við skynjum, upplifum, - lesum umhverfi okkar. Lesturinn gefur skynjunum okkar merkingu, sem við skráum í huga okkar. Þannig söfnum við reynslu og þekkingu. Þekkingin er árangur reynslunnar. Þekkingin, sem við varðveitum í huga okkar, verður síðan viðmið á gildi komandi reynslu. Því meira sem við varðveitum af hagnýtri skynreynslu, þeim mun skynsamari verðum við, - og læsari á lífið. Þannig þjálfum við grundvöll allrar lestrarfærni án kennslu. Með öðrum orðum, lesfærni allra einstaklinga á lífið og umhverfi sitt er þeim meðfædd, sammannlegur eiginleiki óháður tíma og rúmi. Öðru máli gegnir með talmálið. Ef máltakan væri okkur eðlislægur, meðfæddur eiginleiki, þá væri um að ræða tegundareinkenni mannsins og tegundin maður myndi þá tala eitt og sama tungumálið. Önnur málsgrein tilvitnunarinnar hittir naglan á höfuðið. Börn læra almennt að lesa texta með sínu lagi og áreynslulítið. Erfiðleikarnir koma upp þegar um skipulagða, tímasetta lestrarkennslu er að ræða. Þvinguð lestrarkennsla getur mistekist, lestrarnámið orðið „óyfirstíganleg hindrun og sársaukafull reynsla,“ niðurstaðan kölluð lesblinda, sögð meðfædd og ættgeng. Slík reynsla markar alla skólagöngu og skerðir lífsgæði. Niðurlæging, auðmýking og sársauki tengjast texta og lestri, þau tapa og hlíta dómi. Tapararnir forðast texta og lestur, reyna að fela vanmátt sinn og forðast að láta reyna á þennan meinta ágalla. Lesblinda er lestrarfælni – fóbía – „HHFS“ barna vegna sársaukafullrar, auðmýkjandi lestrarkennslu.


Mega ráðherrar ljúga?

Undanfarnar vikur og mánuði hafa orðið nokkrar umræður um sannsögli ráðherra og ráðvendni svo og um ábyrgð forstöðumanna ríkisstofnana er snýr að því að halda kostnaði innan fjárlagaheimilda. Ráðherrar hafa verið sakaðir um að ljúga að þingi og þjóð og ráðvandir þingmenn hafa talað um að reka þyrfti úr starfi þá forstöðumenn ríkisstofnana sem fara fram yfir á fjárlögum. Þessi umræða snertir mig ónotalega þar sem ég hef orðið illilega fyrir barðinu á óráðvöndum og ósannsöglum ráðherrum og embættismönnum. Örlagavaldar mínir lugu að þjóðinni, lugu að þingheimi og lugu fyrir dómi. Þjóðin trúði lygunum, þingið varði lygarnar og dómstóllinn engdist. Mér var innrætt djúp virðing fyrir mannkostum þeirra og hæfni sem kjörnir væru og skipaðir til forsjár okkur fáráðum almúanum. Rætur þeirrar innrætingar tóra enn þótt mjög hafi stofninn skekist og laufskrúðið fallið á vegferð minni um mannheima, þá einkum við kynni mín af stjórnmálum og opinberri stjórnsýslu. Við búum að sögn við þrískiptingu valdsins og aðskilnað í löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Löggjafinn setur samfélaginu lög, framkvæmdavaldið sér um að lögum sé framfylgt og dómsvaldið ákvarðar lögmæti gjörða okkar og þá viðurlög við frávikum ef finnast. En er þetta svo, virkar þessi öryggisventill lýðræðisins, - þrískipting valdsins? Þjóðin kýs fulltrúa sína til setu á Alþingi. Kosnir eru frambjóðendur, sem stjórnir og ráð stjórnmálaflokka hafa samþykkt að megi setjast á þing. Með röðun frambjóðenda á lista hafa stjórnmálaflokkarnir því þrengt mjög að kosningarrétti almennings, réttinum til að velja sér fulltrúa á þing. Með röðun á lista eru 40 – 50 þingsæti af 63 þegar mönnuð og þau sem eftir eru verða setin af einhverjum þeim, sem flokkarnir hafa ákveðið að kjósendur megi velja á milli. Að kosningum loknum er mynduð ríkisstjórn. Oftast eru það formenn tveggja eða þriggja stærstu flokkanna á þingi, flokksforingjar meirihluta þingmanna, sem mynda meirihlutastjórn. Að venju setjast kjörnir þingmenn í ráðherrastólana og gegna þannig tveimur störfum. Þar með er sjálfstæði löggjafarvaldsins fallið. Forystumenn stjórnmálaflokkanna velja sér flokksbræður til þingsetu og ráðherra úr þingliði. Ráðherrar og embættiskerfið taka síðan að sér löggjafarvaldið, þannig að lagafrumvörp eru undirbúin og frágengin af stjórnarráðinu, samþykkt í ríkisstjórn, kynnt í þingflokkum stjórnarflokkanna og keyrð í gegnum Alþingi. Séu stjórnarráðsmenn ósáttir við lagasetninguna má jafnvel tefja framkvæmd laganna með ákvæðum í reglugerðum. Löggjafarvaldið er sem sagt í höndum ráðherra og embættismanna stjórnarráðsins. En hvað með dómsvaldið? Er það óháð valdastofnun sem almenningur getur treyst? Kjósum við okkur dómara? Nei, forystumenn stjórnmálaflokkanna, sem komnir eru í ráðherrastóla, velja sér dómara í hæstarétt sem héraðsdóm. Hver er þá orðin staða lýðræðisins og þrískiptingar valdsins þegar stofnanir og forysta ríkisstyrktra stjórnmálaflokka ákveða hverjir megi verða þingmenn, hverjir skuli verða ráðherrar og hverjir komist í dómaraembætti? Foringjarnir setjast sjálfir í ráðherrastóla og velja með sér trausta flokksmenn. Framkvæmdavaldið segir síðan Alþingi fyrir verkum og velur dómara á bæði dómsstig. Við þessar aðstæður fara öflugir flokksgæðingar sínu fram, jafnvel á svig við almennt velsæmi, sem og lög og reglur. Þó almenningi ofbjóði framganga þeirra þurfa þeir engu að kvíða, flokksbræður þeirra og samherjar á þingi slá um þá skjaldborg og finna þeim síðan feit embætti, t.d. sem bankastjórar, forstöðumenn ríkisstofnana eða sendiherrar. Einhverjir þingmanna vilja reka forstöðumenn ríkisstofnana fari þeir fram úr fjárlögum. Lítum á dæmi. Alþingi setur nákvæm lög um grunnskóla ríkisins. Fyrirkomulag skólahalds er nánar útfært í reglugerðum, námstilhögun í námsskrá. Kostnaður við kennslu ræðst í kjarasamningum. Að fyrirmælum og forsendum gefnum, reiknar forstöðumaður út heildarkostnað ríkisins við framkvæmd laganna og skilar inn í viðkomandi ráðuneyti sem tillögu til fjárlaga. Ráðuneyti ber að skila raunhæfum niðurstöðum forstöðumanns til fjárlaganefndar en þá gerist það að hækkun útgjalda á milli ára þykir of mikil og ráðuneytið lækkar niðurstöðutölu forstöðumanns um 10%. Stjórnarliðar í fjárlaganefnd trúa fjárlagatillögum úr ráðuneyti ráðherra síns og telja sig tryggja lögboðna framkvæmd skólastarfs með samþykkt þeirra. Framkvæmd stendur óhögguð en fjárveiting skorin niður um 10%. Óhjákvæmileg afleiðing er framúrkeyrsla upp á rúm 11%, sem síðan er höfð til marks um óráðsíu forstöðumanns og óhlýðni við fjárlög! Það er varla hlutverk framkvæmdavaldsins að hindra framkvæmd lögboðinnar almannaþjónustu með óraunhæfum fjárlagatillögum eða tefja gildistöku laga með ákvæðum í reglugerðum. Ef framkvæmdavald og fjárlaganefnd valda hlutverki sínu þarf engan að reka; en verði þeim á mistök eða misgjörðir má alltaf kenna öðrum um og jafnvel refsa með brottvísun.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband