Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

Vá í véum?

Skólabörn eiga stundum erfitt með að læra sporin og finna taktinn í menntavalsinum. Geta þá verið dofin og dreymin eða úthverf og ógnandi skólastarfinu.
Greining á vandanum leiðir gjarnan í ljós að börnin séu haldin athyglisbresti, ADD, eða athyglisbresti með ofvirkni, ADHD. Við slíkum röskunum finnast lyf sem sögð eru virka, – eru það geðlyf og er því um geðraskanir að ræða. Algengasta lyfið við þessum röskunum er ritalín, (methylphenidat.)
Finni barnið fyrir depurð, kvíða eða þunglyndi, má bæta þar úr með „gleðipillum“ og hugmyndaflug – myndrænt sem hljóðrænt – má slá niður með geðklofalyfi!

Það getur ekki verið heilbrigt að sjúkdómsgreina börn sem fljóta ekki fyrirhafnarlítið eftir flæðilínu skólakerfisins og slá síðan á sjálfstæði þeirra, frumkvæði og lífskraft með lamandi blöndu geðlyfja.
Árgangaraðað hlýðnikerfi skyldunámsins brýtur þannig niður frumkvæði og sköpunargleði þeirra nemenda sem illa una einslitri, staðlaðri ítroðslu.

Námsstíll barna er mismunandi. Mörg una almennu uppleggi skólans. Þau hugsa í/með orðum. Öðrum hentar betur myndræn framsetning – þau hugsa í myndum. Svo eru þau – gjarnan myndræn – sem geta ekki hugsað nema að vera á hreyfingu.
Það eru einkum myndræn börn með ríka hreyfiþörf sem eru greind með geðraskanir, (annars mætti ekki gefa þeim geðlyf?), og sett á ritalín.

Meðal þeirra, sem aðhyllast slík vinnubrögð, er því haldið fram að ADHD sé alvarlegur sjúkdómur, enginn geðsjúkdómur sem hrjái börn sé jafn vel rannsakaður og ofvirkni og að meira sé vitað um verkan ritalíns á börn en öll önnur geðlyf sem þeim eru gefin.
Þá er einnig varað við ýmsum sértrúarsöfnuðum og einstaklingum sem ekki séu vandir að virðingu sinni og reyni með lygum, rangfærslum og útúrsnúningi á rannsóknarniðurstöðum að sá vafa um ritalín og verkan þess.

Lyfjafræðin segir okkur aftur á móti, að það sé ekki þekkt hvað valdi ADHD né heldur hvernig methylphenidat og önnur sambærileg lyf verki á sjúkdóminn. Þó sé það vitað að þessi efni leiði til aukinna áhrifa taugaboðefnanna dópamíns, noradrenalíns og serótóníns í miðtaugakerfinu.

ADHD samtökin halda því fram að ADHD sé taugaþroskaröskun, sem komi yfirleitt fram fyrir 7 ára aldur, orsakir séu í flestum tilfellum líffræðilegar og rannsóknir bendi til truflana í boðefnakerfi heila er snýr að stjórn hegðunar.
Samtökin segja ADHD ekki sjúkdóm og því útilokað að lækna, en draga megi úr einkennum og halda í skefjum.

Í Læknablaðinu hefur komið fram, að fjölgun ávísana á methylphenidat á tímabilinu 2003-2012 hafi numið 160% hjá börnum og 480% hjá fullorðnum.
Methylphenidat er sagt mjög hættulegt lyf vegna þeirrar miklu fíknar sem það getur valdið. Það sé misnotað af nokkur hundruð sprautufíklum hér á landi og öðrum hópi sem sé sennilega mun stærri og taki lyfið inn eða í nefið.

Þá er það athyglisvert að árið 2012 nam notkun methylfenidata hér á landi 17,4 skömmtum á dag fyrir hverja 1000 íbúa samanborið við 6,7 í Noregi, 7,0 í Danmörku og 7,7 í Svíþjóð.
Á sama tíma er ritalín orðið vinsælast fíkniefni sprautufíkla á Íslandi!


Betri skóli kostar minna.


Undanfarin misseri hefur nokkur umræða orðið um sérkennslu í skólum landsins. Vakti það athygli að 27,5% grunnskólanema voru í sérkennslu og var lítill munur á milli árganga. Ekki liggja fyrir tölur um kostnað einstakra sveitarfélaga af sérkennslunni en kostnaður Reykjavíkurborgar af sérkennslu í grunnskólum var áætlaður um eitt þúsund og þrjú hundruð milljónir króna, (1.300.287.000,00 kr.), á skólaárinu.
Heildarfjöldi sérkennslunemenda í grunnskólum borgarinnar var um 3700 og kostnaður á sérkennslunemananda þá að meðaltali um 350 þúsund krónur á ári.
Rætt var um tilgang og árangur sérkennslunnar og þá einkum horft til lestrarfærni nemenda.
Kom fram, að um 23,2% 15 ára drengja og 9% stúlkna gætu ekki lesið sér að gagni við lok grunnskóla.
Ætla má að nemendur, sem ekki geta lesið sér að gagni, njóti sérkennslu og gæti þá ólæs nemandi kostað um 350 þúsund krónur á ári hverju í sérkennslu, eða um 3,5 milljónir á tíu ára skólaferli.
Ríki jöfnuður í skólamálum hér á landi má ætla kostnað vegna sérkennslu á landinu öllu um 3,9 milljarða á ári.
Ljóst er að árangur almennrar lestrarkennslu er óviðunandi og virðist sérkennslan ekki duga til úrbóta þar sem um fjórðungur 15 ára drengja í grunnskólum Reykjavíkur er talinn ófær um að lesa sér að gagni.
Sérkennslu virðist einkum ætlað að mæta sértækum námserfiðleikum svo sem lesblindu, athyglisbresti og ofvirkni, en einnig er þar gripið til lyfja, geðlyfja, til að bæta stöðu þeirra sem sagðir eru ofvirkir og/eða með athyglisbrest.
Kostnaður vegna geðlyfja, sem börnum, (og fullorðnum), sem eru sögð vera með athyglisbrest og ofvirkni, eru gefin, fer ört vaxandi og er nú væntanlega um milljarður króna, (hlutur Sjúkratrygginga Íslands).
Beinn og óbeinn kostnaður ríkis og sveitarfélaga af því að bregðast við meintum námserfiðleikum grunnskólanemenda virðist því orðinn vel á fimmta milljarð króna á ári. Árangurinn getur varla talist ásættanlegur ef um fjórðungur drengja getur ekki lesið sér að gagni við lok grunnskóla og þeim fjölgar sífellt sem þarfnast geðlyfja við athyglisbresti og ofvirkni á fullorðinsaldri.

Lesblinda er ekki meðfædd, ekki sjúkdómur, ekki óbætanlegur ágalli; lesblindan er eiginlega veittur áverki, afleiðing misheppnaðrar lestrarkennslu.
En það er hægt að bæta skaðann, hreinsa sárið, heila meinið og kenna lesturinn með aðferðum sem falla að námsstíl hins "lesblinda." Það er sem sagt hægt að "leiðrétta" lesblinduna.
Mikilvægara er þó, að með því að leggja lestrarkennsluna frá upphafi að námsstíl og þroska nemenda, er hægt að fyrirbyggja að þeir villist út í lesblindufenið og sitji þar fastir.
Hér er því hægt að gjörbreyta lífi "lesblindra" ungmenna og forða þeim yngstu frá feninu og draga um leið úr rekstrarkostnaði grunnskólans.
Af þeirri fjárhæð sem varið er til sérkennslu má ætla að verulegur hluti fari til lestrarkennslu "lesblindra." Með því að leiðrétta áunna lesblindu og fyrirbyggja síðan frekari "lesblinduframleiðslu" má því spara gífurlegar fjárhæðir í sérkennslu og bæta um leið árangur skólastarfs og almennrar kennslu. Eðlilegt væri að bjarga fyrst þeim, sem eru að ljúka grunnskólanámi, og vinna síðan frá báðum endum, leiðrétta þá eldri og fyrirbyggja að yngri börnin lendi í lesblindunni.
Þó mikilvægt sé að draga úr kostnaði er það ekki markmiðið, heldur hitt að gera ungum snillingum skólagönguna ánægjulega og koma þeim heilum og skapandi út í lífið. Það má fækka sérkennslunemendum um 70-90% og færa hundruð, jafnvel þúsundir milljóna úr marvaðatroðslu sérkennslunnar yfir í flugsund og jafnvel dýfingar!
Lífsglöðum, spurulum og skapandi ungmennum þarf ekki að gefa geðlyf, að undangenginni "geðröskunargreiningu," til að auðvelda aðlögun þeirra að samfélagi iðnbyltingarinnar. Þau þurfa virðingu og traust til að skapa það samfélag framtíðarinnar, sem við sjáum ekki fyrir.
Við getum þegar hafist handa. Lækkum framlög til sérkennslu um 2-10%, allt eftir stærð sveitarfélags. Verjum þessum peningum til þróunar og umbóta. Komum lesblindum til bjargar, bætum síðan lestrarkennsluna og tryggjum öllum lestrarfærni á þeim tíma og með þeim aðferðum sem hverjum hentar. Leggjum þannig lesblinduhugtakið af.
Lögum kennsluaðferðir og kennsluhætti að gerð og getu hvers og eins og gefum öllum kost á að njóta sértækra hæfileika sinna, hvort sem námsstíll þeirra er "VHSH" eða "HHFS" (vinsti heila sitja og hlusta eða hægri heila fara og skoða). Þannig má útrýma ofvirknigreiningum og geðlyfjagjöfum fullfrískra barna og unglinga. Ritalín gerir aldrei hægri heila barn að vinstri heila barni en getur komið í veg fyrir að hægri heila barn blómstri og njóti einstakra hæfileika sinna.
Sinnum síðan þeim sem sannarlega þurfa á sérkennslu að halda vegna greinanlegra fatlana og þeim, sannanlega veiku einstaklingum, sem ofvirknigreiningar og geðlyfjagjafir hafa brugðist og komið í veg fyrir að fengju raunverulega úrbót meina sinna.
Á fáum árum getum við breytt grunnskólanum í skóla án tapara og skóla án lyfja, - og sparað milljarða!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband