Dýrkeypt sóun hæfileika.

Skólaárið 2011-2012 voru 27,5% íslenskra grunnskólanema í sérkennslu og var lítill munur á milli árganga. Ekki liggja fyrir tölur um heildarkostnað af sérkennslunni utan Reykjavíkur, en þar var hann áætlaður um eitt þúsund og þrjú hundruð milljónir króna, (1.300.287.000,00 kr.), árið 2012.
Má þá ætla kostnað vegna sérkennslu á landinu öllu um 3,9 milljarða á ári.
Sérkennslu virðist einkum ætlað að mæta sértækum námserfiðleikum svo sem lesblindu, athyglisbresti og ofvirkni, en einnig er þar gripið til geðlyfja til að bæta stöðu þeirra sem sagðir eru ofvirkir og/eða með athyglisbrest.
Kostnaður vegna geðlyfja, sem börnum, (og fullorðnum), sem eru sögð vera með athyglisbrest og ofvirkni, eru gefin, fer ört vaxandi og er nú væntanlega um milljarður króna, (hlutur Sjúkratrygginga Íslands).
Árangurinn er ekki ásættanlegur ef um fjórðungur drengja les sér ekki að gagni við lok grunnskóla og æ fleiri þarfnast geðlyfja við athyglisbresti og ofvirkni á fullorðinsaldri.

Lesblinda er ekki meðfædd, ekki sjúkdómur eða óbætanlegur ágalli; lesblindan er eiginlega veittur áverki, afleiðing misheppnaðrar lestrarkennslu.
En það má bæta skaðann, hreinsa sárið, heila meinið og kenna lesturinn með aðferðum sem falla að námsstíl hins „lesblinda.“ Það er sem sagt hægt að „leiðrétta“ lesblinduna.
Með því að leggja lestrarkennsluna frá upphafi að námsstíl og þroska nemenda, er hægt að fyrirbyggja að þeir villist út í lesblindufenið og sitji þar.

Af þeirri fjárhæð sem varið er til sérkennslu má ætla að verulegur hluti fari til lestrarkennslu „lesblindra.“ Með því að leiðrétta áunna lesblindu og fyrirbyggja síðan frekari „lesblinduframleiðslu“ má spara gífurlegar fjárhæðir í sérkennslu. Björgum fyrst þeim, sem eru að ljúka grunnskólanámi, og vinnum síðan frá báðum endum, leiðréttum þá eldri og fyrirbyggjum að yngri börnin lendi í lesblindunni. Þannig má fækka sérkennslunemendum um 70-90% og færa fjármuni úr marvaðatroðslu sérkennslunnar yfir í flugsund og jafnvel dýfingar!
Lífsglöðum, spurulum og skapandi ungmennum á ekki að gefa geðlyf, að undangenginni „geðröskunargreiningu,“ til að auðvelda aðlögun þeirra að samfélagi iðnbyltingarinnar. Þau þurfa virðingu og traust til að skapa það samfélag framtíðarinnar, sem við sjáum ekki fyrir.
Flytjum fjármuni frá sérkennslu til þróunar og umbóta. Komum lesblindum til bjargar, bætum lestrarkennsluna og tryggjum öllum lestrarfærni á þeirra eigin forsendum. Leggjum þannig lesblinduhugtakið af.
Lögum kennsluaðferðir og kennsluhætti að hæfni hvers og eins og gefum öllum kost á að njóta sértækra hæfileika sinna, hvort sem námsstíll þeirra er „VHSH“ eða „HHFS“ (vinsti heila sitja og hlusta eða hægri heila fara og skoða). Þannig má útrýma ofvirknigreiningum og geðlyfjagjöfum fullfrískra barna og unglinga. Ritalín gerir aldrei hægri heila barn að vinstri heila barni, sem betur fer, en getur komið í veg fyrir að hægri heila barn blómstri og njóti einstakra hæfileika sinna.
Sinnum síðan þeim sem sannlega þurfa á sérkennslu að halda vegna greinanlegra fatlana og þeim, sannanlega veiku einstaklingum, sem ofvirknigreiningar og geðlyfjagjafir hafa brugðist og komið í veg fyrir að fengju raunverulega úrbót meina sinna.
Gefum framtíðinni skóla án tapara og skóla án lyfja; skóla sköpunar og lífsgleði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband