Er sérkennsla sérkennsla?


Almenn kennsla leiðir til almennrar menntunar en sérkennsla til öðruvísi menntunar, sérstakrar menntunar. Námsárangur nemenda í almennri kennslu er misjafn, þeir ná misgóðum tökum á námsefninu, sumir sýna jafnvel alls óviðunandi árangur. Um slíka niðurstöðu má aldrei fjalla sem sérkennslu, (sérstaka menntun), eða segja að nemandinn hafi með henni komið sér upp sérkennsluþörf, þ.e. þurfi á sérkennslu, (sérstakri kennslu), að halda til þess að ná viðunandi tökum á almennu námsefni.
Þessi nemandi þarf ekki sérkennslu, hann hefði þurft meiri og betri almenna kennslu en þarfnast nú aðstoðar og endurvinnslu, aukakennslu, hjálpar- eða stuðningskennslu.
Þeir nemendur, sem vegna fötlunar sinnar geta ekki nýtt sér almenna kennslu, eiga rétt til sérstakrar kennslu við sitt hæfi. Það er sérkennsla; önnur markmið, ólíkt námsefni, umgjörð og aðferðir. Sérkennsla er ekki aðferðin til að tryggja ófötluðum nemendum viðunandi árangur í almennu grunnskólanámi.

Sérkennsluþörf.

Einhver skilgreinanleg ástæða veldur því að nemendur eru ófærir um að tileinka sér námsefni almennrar grunnskólakennslu á viðunandi hátt og sér að gagni. Sérstök kennsla, sérkennsla, er þá leiðin til að tryggja þeim þann þroska sem er þeim mögulegur. Þeir njóta jafnréttis í námi þegar þeim er svo mismunað að viðfangsefni séu við þeirra hæfi en ekki þau sömu og annarra. Þannig sjá þeir árangur erfiðis síns, upplifa sigra og öðlast sjálfstraust. Þeir þarfnast sérkennslu vegna fötlunar sinnar og til að tryggja lagalegan rétt þeirra til kennslu „ ... í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir ...“ er stuðli að „ ... alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins ...“ verður að halda fast við þessa þröngu skilgreiningu hugtaksins sérkennsla.
En framkvæmdin hefur orðið önnur. Allt frá níunda áratugnum er áhrifa grunnskólalaganna fer að gæta, sveigðu stjórnvöld og skólar frá fyrirmælum þeirra, einkum er varðar greiningar sérkennslunemenda.
Er nú svo komið að tæp 30% grunnskólanema eru í sérkennslu og um helmingur þeirra án formlegrar greiningar!
Á níunda áratugnum þótti það óhæfa að ætla 2-3% nemenda sérkennslu, jafnvel þótt greiningar á vanda þeirra lægju fyrir.
Nú eru fötluðu sérkennslubörnin, 3-4 prósentin, kaffærð af fimm til sexföldum fjölda sínum af „sérkennslunýbúum,“ sem ekki eru fatlaðir, en eiga í erfiðleikum í námi og þarfnast hjálpar. Vandi þessara nemenda er annar en þeirra fötluðu. Þeir þarfnast vissulega aðstoðar og öflug aðstoð skilar þeim gjarnan vel áleiðis í námi, en það er ekki sérkennsla.
Ef góður fjórðungur nemenda í almennu grunnskólanámi nær ekki viðunandi árangri, þá er eitthvað að. Skólinn bendir á nemandann; þessi þarfnast sérkennslu. Slík „sérkennsla“ ber jafnan árangur og með því að mæta meintri sérkennsluþörf er henni jafnframt eytt!
Er rétt að aðgreina og stimpla um fjórðung nemenda sem misstíga sig í menntavalsinum?
Hvað með að leita viðeigandi lausna, jafnvel með nýbreytni í skólastarfi?
Við megum ekki stefna framtíð saklausra barna í hættu með því að senda þau í sérkennslu þegar allt sem þau þarfnast er sú almenna kennsla, sem alþingismenn töldu sig tryggja þeim með samþykkt markmiðsgreinar grunnskólalaganna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband