Eðlismunur lífsleikni- og starfsmennta.
13.3.2014
Hlutverk grunnskólans er uppeldi og mótun; að laða fram mannlega eiginleika sem þeir lifna og birtast, þroska þá og móta til hæfileika og færni, einstaklingum og samfélagi til hamingju og heilla. Það má líka orða það svo að hlutverk grunnskólans sé að leiða vaxandi ungviði í sannleikann um mannlegt eðli svo og að kenna og þjálfa félagslega færni, siði og reglur mannlegra samskipta.
Sálar,- uppeldis- og kennslufræðin eiga síðan að svara okkur því, hver fræðsla og viðfangsefni, hvenær og hvernig unnin, megi best tryggja árangur skólastarfsins.
Lífsskeið grunnskólanemandans er skeið vaxtar og þroska, - líkamlega, tilfinningalega, vitsmunalega og félagslega. Með grunnskólalögum skuldbindur samfélagið sig til þess að hlúa að, örva og móta mannlega möguleika hvers og eins. Hlutverk grunnskólans er að sinna þörfum uppvaxandi ungviða, að rækja skyldur samfélagsins við börn og unglinga. Hlutverkið er mannrækt, að búa ungviðinu leikni og færni til þess að ferðast áfallalítið um mannheima og velja sér verkefni, sem hæfa áhuga og getu.
Viðfangsefni grunnskólans er því lífsleikni og þá má líta á lokaskírteini grunnskólans sem eins konar haffærniskírteini á lífsins ólgusjó. En fæstum er það nóg að fljóta menn vilja sigla og ráða för.
Hlutverk framhaldsskólans er annars eðlis, það er að hlusta á raddir samfélags og atvinnulífs og setja þeim kröfur og skilmála um þekkingu og leikni sem vilja sigla og ráða för.
Framhaldsnám skal undirbúa nemendur undir tiltekin störf sem krefjast viðeigandi sérmenntunar.
Einnig má orða það svo, að viðfangsefni skyldunámsins sé lífsleikni en viðfangsefni framhaldsnámsins starfsleikni.
Ég tel grunnskólann líða fyrir það að við viðurkennum ekki eðlismun lífsmennta og starfsmennta. Nú er meginhlutverk grunnskólans, lífsleiknin, orðin sjálfstæð námsgrein. Ekki líst mér á að loka þetta viðfangsefni af sem einangraða námsgrein í grunnskólanum og opna þá jafnvel fyrir enn meiri stýringu framhaldsskólans.
Ég vil halda kröfunni um mannrækt og lífsleikni grunnskólans ofar kröfu framhaldsskólanna um tiltekna þekkingu í einstökum námsgreinum. Til þess að skilja á milli eðlislega óskildra markmiða grunnnáms og framhaldsnáms er ef til vill nauðsynlegt að lengja tímabilið þar á milli frá einu sumri, jafnvel að leggja inn millistig sem verði þá hvort tveggja í senn fullnumun og prófraun lífsleikninnar og undirbúningur sérhæfingar.
Á kerfismáli vildi ég sjá lok skyldunáms á fermingarvori nemandans eða með 8. bekk. Eftir skólaskylduna tæki síðan við þriggja ára frjáls miðskóli, mjög sveigjanlegur, en vel skilgreindur og væri unglingamiðaður legði megináherslu á verk- og listgreinar, félagsþroskun og persónumótun. Skólaskyldan væri þá átta ár en fræðsluskylda stæði þremur árum lengur. Framhaldsskólinn væri síðan þriggja ára skóli.
Sveigjanleiki væri í kerfinu til að ljúka hverju skólastigi fyrir sig á skemmri tíma.
Inntökupróf væru haldin við framhaldsskóla, lokapróf áfanga eftir ástæðum og útskrift ræðst af námshraða nemenda, sem gætu þá hafið háskólanám mun fyrr en verið hefur.
Skyldunámið, grunnskólinn, ætti að vera í umsjá ríkisins, en miðskólinn og framhaldsmenntunin á betur heima í umsjá sveitarfélaga og samtaka þeirra.
Athugasemdir
Skólayfirvöld eru stóra vandamálið í öllum þessum skólamála-vanda, á öllum stigum.
Það er ekki hlutverk grunnskóla að ala upp börn, heldur kenna þeim að bjarga sér í lestri, skrift og reikningi.
Og það er ekki hlutverk foreldra að kenna börnum heima eftir fullan vinnudag barna í grunnskóla. Til þess hafa foreldrar ekki menntun. Það þarf að hafa grunnskóla til að kenna börnum það sem kennarar kunna að kenna, umfram foreldra.
Er þetta eitthvað flókið?
Foreldrar eiga hins vegar, og án nokkurs vafa, að ala upp börnin, og kenna þeim það sem á að kenna börnum utan grunnskólanna opinberu.
Þetta virðist flækjast mjög mikið fyrir stjórnsýslunni opinberu og óábyrgu!
Það er að sjálfsögðu alfarið á ábyrgð skólayfirvalda, að bæði kennarar og foreldrar standa nú ráðþrota gagnvart ábyrðarlausum skólayfirvöldum, sem bara rugla og brjóta niður alla sem skólamálin varða!
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 13.3.2014 kl. 18:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.