Að vera ólæs sér til gagns.

Samkvæmt skýrslu starfshóps á vegum Reykjavíkurborgar um úrræði sem stuðla að auknum námsárangri drengja í grunnskólum eru 23,2% 15 ára drengja og um 9% 15 ára stúlkna ófær um að lesa sér til gagns. 

 

Í fréttatilkynningu frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins, sem birtist í Morgunblaðinu 18.09.2013, segir m.a.: „Í dag eru of mörg börn ólæs sér til gagns við lok grunnskóla."

Þú ert læs ef þú upplifir og skilur þann boðskap sem texti flytur þér.  Þegar ég lít á tilvitnaða málsgrein sýnist mér því að ég muni ekki vera læs.

Ef við lítum svo á að lestrarferlið hefjist við það að boðskapur sé lagður í texta, þá lítur fremur út fyrir að borgarstjórnarflokkurinn sé ólæs.

Ég get mér þess nefnilega til að boðskapurinn, sem textinn átti að flytja til lesenda, sé sá að of mörg börn geti ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla.

 

Þá segir einnig í fréttatilkynningunni: „Sjálfstæðismenn telja nauðsynlegt að nú þegar verði sett skýr markmið um að fækka börnum sem geta ekki lesið sér til gagns."

Ég er varla læs á þessa málsgrein heldur. Merkingin veltur til og frá líkt og horfi ég á vasa Rubins, (andlit / vasi).

 

Sé það nú hluti af lestrarferlinu að koma boðskap í óbrenglaðan texta, þá er það vissulega áhyggjuefni hve illa ólæsi getur leikið hóp háskólamenntaðra fulltrúa almennings í valda- og ábyrgðarstöðum.

 

Hvort á að fækka þeim börnum sem geta ekki lesið sér til gagns eða bæta lestrarkennslu og lestrarfærni í grunnskólum?

Að fækka börnum hljómar gasalega en að bæta lestrarkennsluna, með því að taka upp kennsluaðferðir sem forða nemendum frá fenjum lesblindunnar, er göfugt markmið. 

 

Það blasir hér við að almenn lestrarkennsla skilar alls ekki viðunandi árangri. Það er staðfest með gífurlegri sérkennslu í öllum 10 bekkjum grunnskólans. 

Álíka fjöldi 23,6 - 30,4 % nemenda eru í sérkennslu í hverjum árgangi eða 27,5% allra grunnskólanemenda á landinu. Tæpur helmingur þeirra er í sérkennslu án greiningar á þeim vanda, sem sérkennslan beinist að. Gert er ráð fyrir að heildarútgjöld vegna sérkennslu í grunnskólum Reykjavíkur muni nema liðlega 1.3 milljörðum króna á þessu ári. Má þá ætla að sérkennslan kosti um 2.1 milljarð á landisvísu. Þrátt fyrir þennan mikla kostnað af sérkennslu í öllum bekkjum er það staðfest að um fjórðungur þeirra drengja, sem eru að ljúka námi í grunnskólum Reykjavíkur, hafa aldrei getað lesið sér að gagni. Virðist því óhætt að álykta að sérkennslan sé ómarkviss og gagnslítil, þar sem gífurlegur kostnaður skilar alls óviðunandi árangri.

 

Það virðist sem sagt litlu skipta um árangur lestrarkennslunnar hvort um almenna bekkjarkennslu eða sérkennslu sé að ræða. Ef fyrirkomulag og aðstæður við kennsluna skipta litlu eða engu, þá er eðlilegt að setja spurningarmerki við kennsluaðferðina.

Svokölluð hljóðaaðferð hefur verið ráðandi í lestrarkennslu síðustu áratugina hvort sem kennslan fer fram sem bekkjarkennsla eða sérkennsla. Aðferðin gengur út á það að börnin læri fyrst stafina, nöfnin þeirra og hljóð. Er þá talað um að byggja upp málvitund frá minnstu einingum ritmálsins. 

Hér er tvennt að.

Í fyrsta lagi er það ekki rétt að segja börnum að allir stafirnir hafi hljóð og láta þau síðan hljóða sig í gegnum orð. Svo bætum við um betur með því að segja þeim að sérhljóðarnir segi nafnið sitt sjálfir en samhljóðarnir geti það ekki. Þarna erum við að gefa börnunum misvísandi upplýsingar um sama fyrirbærið.  Þau skynja og upplifa það sanna, þótt þau kunni ekki að vinna úr þessari reynslu sinni. Flest börn virðast geta leitt þetta rugl hjá sér og læra bara að lesa en öðrum verður þetta um megn og lestrarnámið mistekst meira eða minna. Þau eru þá sögð lesblind. Þessi börn eru gjarnan mjög næm, viðkvæm, hugsa í myndum og eru mjög skapandi. Eftir lestraráfallið eiga þau á hættu að verða sögð með athyglisbrest og jafnvel ofvirk eða vanvirk.

Í öðru lagi er það hlutverk tungumáls að flytja merkingu.  Minnsta merkingarbæra eining málsins er orðið, - ekki einstök tákn eða hljóð. Að kenna lestur sem rýni í tákn, án tengsla við merkingu, leiðir oft til þannig tæknifærni að börn geta lesið (hljóðað) táknin án þess að upplifa merkingu og hafa þá hvorki gagn né gaman af „lestrinum." Eru þau jafnvel sögð vel læs en lesskilningurinn sagður lélegur.

Að lesa er það að upplifa merkingu textans. Sá, sem ekki upplifir það sem hann les, er einfaldlega ekki að lesa- og þá ekki læs.  Og hafi skólinn gefið honum læsisvottorð út á hljóðun ákveðins fjölda atkvæða á mínútu þá er það marklaus  vitnisburður um lestrarfærni. Sá, sem upplifir ekki merkingu texta, nær ekki að „afferma" textann, er einfaldlega ólæs, hefur hvorki ánægju né gagn af þeirri athöfn sem skólinn kallar lestur.

Það er löngu tímabært að leita nýrra leiða í lestrarkennslu. Að kenna lestur sem athöfn, þar sem orðin kveikja upplifun þeirrar merkingar sem í þeim býr. Þá læra börnin að njóta þess að lesa og ferðast um hugarheima.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband