Það er ekki sama hvernig róið er!

Hvað er að vera lesblind(ur)?  Hvað er að vera með lesblindu?

 

Þegar börn koma í skóla og skipuleg lestrarkennsla er hafin, kemur í ljós að sumum þeirra er ekki lagið að ná viðunandi árangri. Verði lítil bót á næstu árin er því slegið föstu að nemandinn sé lesblindur – eða með lesblindu. 

Foreldrum er þá jafnvel sagt að lesblinda sé meðfædd – nánast sjúkdómur, ættgeng og ólæknandi, en með þjálfun og notkun hjálpartækja geti lesblindir þó eignast þolanlegt líf.

Ég ætla að fullyrða að þetta sé rangt. Lesblinda er ekki meðfædd, ekki ættgeng, ekki ágalli eða sjúkdómur og alls ekki „ólæknandi.“

Tungumál er manngert verkfæri þróað til samskipta.  Lokaáfangi máltökunnar er að ná valdi á ritun og lestri, skráningu og aflestri rittákna talaðs máls.

Þegar börn koma í skóla er komið að lokaáfanga máltöku með formlegri lestrarkennslu og öllum ætluð sömu viðfangsefni með sömu aðferðum. Allir eiga því að geta náð sama árangri á sama tíma, en fljótlega kemur í ljós að uppskeran verður ærið misjöfn.

Einhver barnanna eru þegar læs, önnur taka vel við, en nokkur eru ekki tilbúin í verkefnið. Svo eru þau, sem aldrei verða tilbúin í lestrarnám með „hefðbundnum“  aðferðum.  Þeim hentar ekki að læra að lesa með því að læra nöfn og hljóð merkingarlausra tákna,  jafnvel í tiltekinni röðun og finna þannig hljóðmyndir orða.  Að nota hið óþekkta til að finna hið þekkta.  Þau eru altalandi og hafa þróað talmál sitt, hljóðmyndir orða, út frá merkingarmyndum sínum, sem vökul og næm skynjun hefur byggt upp í huga þeirra. Lífsgleði þeirra og áhugi á umhverfi sínu hefur gefið þeim upplifanir sem þau hafa síðan lært að hljóðsetja, lokaskref máltökunnar er síðan að skrásetja.  Með öðrum orðum, að læra að lesa er það að bæta ritun og þá lestri við hljóðmyndir merkingarmynda.  Seilast frá hinu þekkta til hins óþekkta og gera það einnig þekkt og þrungið merkingu.

Börn læra af reynslu og festa í minni hvað sé eftirsóknarvert og hvað beri að forðast. Reynsluheimurinn er þekktur og öruggur; að ferðast á kunnum slóðum, kunna skil á eða kannast við það sem fyrir augu ber þroskar sjálfsmynd og eykur sjálfstraust. Með vexti og þroska víkkar athafnasvið barna, þau leggja inn í reynslubankann og færa varlega út kvíarnar. Að leika á heimavelli, takast á við viðfangsefni sem hljóma við fyrri reynslu og auðga það sem fyrir er, það er öllum ánægjuleg og þroskandi reynsla. Að vera svipt út af öryggissvæðinu og þvinguð til þáttöku í athöfnum að ákvörðun fullorðinna getur varla gengið vel upp og í verstu tilvikum bakað börnum óbætanlegt tjón.

Eigi slík vinnubrögð við um lestrarkennslu nefnist árangurinn lesblinda. 

Hefðu þeir, sem stimplaðir eru lesblindir, fengið að leysa lokaverkefni máltökunnar á heimavelli, með sínu lagi og þegar þeim hentaði, þá hefði verkið unnist án vandkvæða.

Þegar varðveitt og nýtanleg reynsla hefur vaxið að gildi með tilkomu hljóðsetningar og barnið er sagt altalandi kemur að skráningu talaðra orða. Að kenna lestur með því að ganga út frá reynsluheimi og talmáli og bæta ritun þar við kalla ég náttúruaðferðina. Þú lærir talmál með því að læra hljóðmynd orðsins sem heildar. Hljóðmyndin hefur beina skírskotun til merkingarmyndar orðsins. Því er eðlilegt að læra lestur, (ritun, stafsetningu), með því að læra sjónmynd orðsins sem heild. Þá hefur sjónmyndin einnig skírskotun til merkingarmyndar. Minnsta merkingarbæra eining texta er orðið og ætti því að miða lestrarkennslu við orðið sem minnstu einingu.  Námsferlið væri þá þessu líkt:  Sjónmynd  >  merkingarmynd  >  hljóðmynd.  

Hefðbundin lestrarkennsla fæst gjarnan við hljóðun einstakra tákna, bókstafa, í sjónmynd orða í leit að hljóðmynd þeirra. Við slíka lestrarkennslu hefur vinna með sjónmynd, (ritað orð), einungis skírskotun til hljóðmyndar en ekki til merkingarmyndar orðsins. Því fer svo að þegar börn eru sögð vera orðin læs er það oft áhyggjuefni hve lesskilningur þeirra er lélegur. 

Stafaföndur og leit að hljóðmynd orða út frá hljóðsetningu einstakra bókstafa, (jafnvel þó svo flestir þeirra séu hljóðlausir), er því varla lestrarkennsla.

Þessi vinnubrögð geta jafnvel hindrað eðlilegt lestrarnám sumra barna.

Við lestur er merkingarmynd flutt frá einu höfði yfir í annað. Texti er flutningatæki reynslu, upplifunar, þekkingar. Ef þú nærð ekki að „afferma“ textann þá ertu í raun ekki að lesa, hversu hátt og snjallt sem „upplestur“ þinn kann að hljóma. 

Sumir, börn og fullorðnir, hugsa í þrívíðum myndum en gera sér ekki grein fyrir því, aðrir vita af því og margir þeirra halda að allir hugsi eins og þeir. Flestir hugsa þó í orðum og halda líka að allir hugsi eins og þeir, - vita ekki að myndhugsun sé til.

Þeim, sem hugsa í myndum, reynist oft erfitt að læra að lesa með hefðbundnum skólaaðferðum. Þeir þurfa að læra lestur út frá merkingu málsins, sjónmynd á blaði kveikir í huga merkingarmynd orðsins og mun þá hljóðmynd fylgja. Annars eiga þeir á hættu að verða sagðir lesblindir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband