Vá í véum?

Skólabörn eiga stundum erfitt með að læra sporin og finna taktinn í menntavalsinum. Geta þá verið dofin og dreymin eða úthverf og ógnandi skólastarfinu.
Greining á vandanum leiðir gjarnan í ljós að börnin séu haldin athyglisbresti, ADD, eða athyglisbresti með ofvirkni, ADHD. Við slíkum röskunum finnast lyf sem sögð eru virka, – eru það geðlyf og er því um geðraskanir að ræða. Algengasta lyfið við þessum röskunum er ritalín, (methylphenidat.)
Finni barnið fyrir depurð, kvíða eða þunglyndi, má bæta þar úr með „gleðipillum“ og hugmyndaflug – myndrænt sem hljóðrænt – má slá niður með geðklofalyfi!

Það getur ekki verið heilbrigt að sjúkdómsgreina börn sem fljóta ekki fyrirhafnarlítið eftir flæðilínu skólakerfisins og slá síðan á sjálfstæði þeirra, frumkvæði og lífskraft með lamandi blöndu geðlyfja.
Árgangaraðað hlýðnikerfi skyldunámsins brýtur þannig niður frumkvæði og sköpunargleði þeirra nemenda sem illa una einslitri, staðlaðri ítroðslu.

Námsstíll barna er mismunandi. Mörg una almennu uppleggi skólans. Þau hugsa í/með orðum. Öðrum hentar betur myndræn framsetning – þau hugsa í myndum. Svo eru þau – gjarnan myndræn – sem geta ekki hugsað nema að vera á hreyfingu.
Það eru einkum myndræn börn með ríka hreyfiþörf sem eru greind með geðraskanir, (annars mætti ekki gefa þeim geðlyf?), og sett á ritalín.

Meðal þeirra, sem aðhyllast slík vinnubrögð, er því haldið fram að ADHD sé alvarlegur sjúkdómur, enginn geðsjúkdómur sem hrjái börn sé jafn vel rannsakaður og ofvirkni og að meira sé vitað um verkan ritalíns á börn en öll önnur geðlyf sem þeim eru gefin.
Þá er einnig varað við ýmsum sértrúarsöfnuðum og einstaklingum sem ekki séu vandir að virðingu sinni og reyni með lygum, rangfærslum og útúrsnúningi á rannsóknarniðurstöðum að sá vafa um ritalín og verkan þess.

Lyfjafræðin segir okkur aftur á móti, að það sé ekki þekkt hvað valdi ADHD né heldur hvernig methylphenidat og önnur sambærileg lyf verki á sjúkdóminn. Þó sé það vitað að þessi efni leiði til aukinna áhrifa taugaboðefnanna dópamíns, noradrenalíns og serótóníns í miðtaugakerfinu.

ADHD samtökin halda því fram að ADHD sé taugaþroskaröskun, sem komi yfirleitt fram fyrir 7 ára aldur, orsakir séu í flestum tilfellum líffræðilegar og rannsóknir bendi til truflana í boðefnakerfi heila er snýr að stjórn hegðunar.
Samtökin segja ADHD ekki sjúkdóm og því útilokað að lækna, en draga megi úr einkennum og halda í skefjum.

Í Læknablaðinu hefur komið fram, að fjölgun ávísana á methylphenidat á tímabilinu 2003-2012 hafi numið 160% hjá börnum og 480% hjá fullorðnum.
Methylphenidat er sagt mjög hættulegt lyf vegna þeirrar miklu fíknar sem það getur valdið. Það sé misnotað af nokkur hundruð sprautufíklum hér á landi og öðrum hópi sem sé sennilega mun stærri og taki lyfið inn eða í nefið.

Þá er það athyglisvert að árið 2012 nam notkun methylfenidata hér á landi 17,4 skömmtum á dag fyrir hverja 1000 íbúa samanborið við 6,7 í Noregi, 7,0 í Danmörku og 7,7 í Svíþjóð.
Á sama tíma er ritalín orðið vinsælast fíkniefni sprautufíkla á Íslandi!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Sæll Sturla!

HVAR ERU FYRIRMYNDIR SAMFÉLAGSINS?

Er ekki bara orðið of margt sem glepur í UMHVERFINU

/truflar athygli og stuðar fólk upp ?

Nú þurfa allir að taka þátt í HM og gleðigöngum þar sem að allir stíga trylltan dans;

bæði fullorðinir og unglingar?

http://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/1383631/

Jón Þórhallsson, 23.6.2014 kl. 18:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband