Það stendur í fræðibók um lesblindu, kenningar og mat að flestir með lesblindu hafi fæðst með hana. Lesblindan sé ýmist þroskatengd og meðfædd eða áunnin og stafi þá af slysum eða veikindum. Þetta getur ekki verið rétt. Lesblinda getur ekki verið meðfædd, - og þá ekki heldur ættgeng.
Lestur er lærð athöfn og lesblinda er því nafn yfir þá stöðu sem upp kemur þegar kennarinn skilar frá sér kennslu en nemandinn nær ekki að læra það sem til er ætlast. Nú er það svo að lestrarfræðingar í okkar menningarheimi aðhyllast almennt svokallaða hljóðaaðferð við lestrarkennslu. Bent er á ágæti aðferðarinnar; nær öllum börnum reynist hún vel þó fáeinir ná ekki tökum á lestrinum, - en þeir hafi fæðst lesblindir. Þarna er öllu snúið á haus. Það er ekki rétt að þú náir ekki tökum á lestri með hljóðaaðferð vegna þess að þú sért lesblindur, - kennsluaðferðin veldur því að þú nærð ekki tökum á lestri þegar til þess er ætlast og verður því sagður lesblindur. Lesblindan er afleiðing árangurslausrar lestrarkennslu en ekki orsök. Athöfnin kennarans, kennslan, nær ekki að virkja nemandan til náms. Trúlega vegna þess að það, að hljóðsetja bókstafi og hljóða síðan orðið, er ekki lestur.
Forsendur lesblindunnar eru ávallt þær sömu. Öðru máli gegnir með útfallið eða birtingarmyndina. Birtingarmyndir lesblindunnar eru trúlega jafn margar og tilfellin. Margir telja því, að til séu margar útgáfur af lesblindu en eru þá að meta birtingarmyndirnar sem ólíkar gerðir lesblindunnar.
Hugsum okkur dreng í 4. bekk. Hann er greindur lesblindur. Lestrarkennslan hefur litlu sem engu skilað. Hann hefur verið í sérkennslu í lestri frá því í fyrsta bekk. Hann þekkir ekki alla stafina af öryggi. Hann er mjög bundin í hljóðun bókstafanna og mikil orka fer í að hljóða sig í gegn um orð og renna hljóðunum síðan í orðmyndina. Hann les myndskreytt léttlestrarefni með eins og tveggja atkvæða orðum sí endurteknum. Lestrarþjálfunin snýst um það að muna réttu hljóð stafanna og finna svo út hljóðmyndir orðanna. Staðan í lestrinum er farin að hafa veruleg áhrif á almenna líðan í skólanum.
Í 10. bekk er mögulegt að okkar maður sé laus úr sérkennslu, (23,6% grunnskólanema eru þó enn í sérkennslu í 10. bekk), geti lesið 2-300 atkvæði.
En, hann upplifir ekki það sem hann les, og það sem þú upplifir ekki getur þú ekki hugsað um, ekki skilið, ekki munað og það getur ekki orðið þér að gagni.
Hann er sagður læs, en lesskilningur mjög lélegur.
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands um sérkennslu í skólum landsins skólaárið 2011-2012 eru 27,5% grunnskólanema í sérkennslu eða 11.656 af 42.365. Sérkennslan er nokkuð svipuð í öllum árgöngum, eða frá 23,6% í fyrsta og tíunda bekk, upp í 30,4% í fjórða bekk. Ekki verður ráðið af tölum Hagstofunnar að umfangsmikil sérkennsla í yngri bekkjum skili miklum árangri, þar sem hlutfall sérkennslunemenda er nánast óbreytt upp allan grunnskólann. Ennfremur má nefna sem dæmi að í áttunda bekk eru1060 nemendur, eða 24,8% árgangsins í sérkennslu, en þegar þessi árgangur var í fyrsta bekk voru 17,3%, eða um 740 nemendanna í sérkennslunni. Þá er það athyglisvert að í fyrsta bekk, þar sem 1007 nemendur eru í sérkennslu, eru 595 án greiningar á þeim vanda sem þá sérkennslan ætti að bæta úr. Af alls 11.656 sérkennslunemendum eru 5438 eða 46,7% án greiningar á vanda sínum.
Ætla má að verulegur hluti sérkennslu sé til kominn vegna lestrarkennslu. Ef lestrarkennsla gengur ekki upp hjá 20-30% nemenda í almennri bekkjarkennslu er gripið til sérkennslu í minni hópum eða einstaklingskennslu. Ef sérkennslan skilar ekki betri árangri en tölur Hagstofunnar og mat á lestrarstöðu 15 ára unglinga í Reykjavík vitna um, þá er eðlilegt að efast um lestrarkennsluna, gildi og réttmæti þeirrar aðferðar sem beitt er.
Við blasir að lestrarkennsla með hljóðaaðferð skilar ekki viðunandi árangri í almennri bekkjarkennslu. Þeir nemendur, sem ekki ná valdi á lestri, eru sendir í sérkennslu í minni hópum eða einir með kennara. Nýjar aðstæður, ný umgjörð, en sama kennsluaðferð, hljóðaaðferðin. Árangur áfram óviðunandi, allt að fjórðungur nemenda enn í sérkennslu í tíunda bekk og allt að fjórðungur drengja og einn tíundi stúlkna geta þá enn ekki lesið sér að gagni.
Fyrir rúmum 30 árum var gerð stórmerk uppgötvun vestur í Bandaríkjunum. Hugmyndaríkur og lesblindur verkfræðingur og listamaður fann leið út úr lesblindunni. Rannsóknarhópur, undir stjórn doktors í námssálarfræði, þróaði verkferli sem reynst hefur mjög vel við að leiðrétta lesblindu, jafnt barna sem unglinga og fullorðinna. Út frá þessari aðferð og með aðstoð þeirra tækniundra sem nú auðvelda öll samskipti og þekkingaröflun sé ég þróast ný viðhorf og nýjar aðferðir í lestrarkennslu. Það er ekki ásættanlegt takmark að leiðrétta áföll misheppnaðrar lestrarkennslu skólakerfisins, takmarkið er að öll lestrarkennsla skili viðunandi árangri.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.