Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014
Lesblinda - lesfælni
20.12.2014
Um læsi segir svo á lesvef H.Í.: Lærð færni. Lestur er ekki eðlislægur, meðfæddur eiginleiki, heldur lærð aðgerð og að því leyti gjörólíkur máltökunni. Lestur og ritun eru hugvit mannsins og menning læsis hefur aðeins fylgt hluta mannkynsins í nokkra mannsaldra. Flest börn læra að lesa án sérstakrar fyrirhafnar og sum að því er virðist algjörlega áreynslulaust. Fyrir önnur verður lestrarnámið óyfirstíganleg hindrun og sársaukafull reynsla, sem jafnvel markar alla þeirra skólagöngu og líf í heild. Ef um alvarlega erfiðleika er að ræða getur það haft í för með sér skert lífsgæði fyrir viðkomandi einstakling. Skilningur og þekking á eðli lestrarerfiðleika getur hjálpað, ekki aðeins við að draga úr alvarleika lestrarerfiðleikanna sjálfra, heldur einnig til að draga úr þeim afleiðingum sem slíkir erfiðleikar hafa á lífsgæði fólks. Fyrsta málsgrein tilvitnunarinnar segir okkur, að það að læra að lesa sé ekki hluti af máltökunni. Með máltöku virðist þá átt við það eitt að ná valdi á töluðu máli, að verða talandi, - að tala sé eðlislægur, meðfæddur eiginleiki en ekki lærð aðgerð eða færni. Að lesa sé aftur á móti lærð aðgerð, ekki eðlislægur meðfæddur eiginleiki og lestrartakan því gjörólík málökunni. Máltakan og lestrartakan séu eðlislega ólík ferli. Við fæðumst þá raunar talandi og með vexti og þroska skili færnin sér, án ytri áhrifa eða formlegrar kennslu; aftur á móti sé lesturinn innflutningsvara, við þurfum að læra lestur og er skipulögð lestrarkennsla fyrirferðarmikil á fyrstu árum skólagöngu. Talfærni sem sagt meðfædd en lestur þurfi að læra. Ég held að þetta standist ekki. Ég held að lestur sé eðlislægur, meðfæddur eiginleiki. Skynfærni er meðfædd, það þarf enginn að kenna okkur að sjá eða heyra eða finna sársauka. Við skynjum, upplifum, - lesum umhverfi okkar. Lesturinn gefur skynjunum okkar merkingu, sem við skráum í huga okkar. Þannig söfnum við reynslu og þekkingu. Þekkingin er árangur reynslunnar. Þekkingin, sem við varðveitum í huga okkar, verður síðan viðmið á gildi komandi reynslu. Því meira sem við varðveitum af hagnýtri skynreynslu, þeim mun skynsamari verðum við, - og læsari á lífið. Þannig þjálfum við grundvöll allrar lestrarfærni án kennslu. Með öðrum orðum, lesfærni allra einstaklinga á lífið og umhverfi sitt er þeim meðfædd, sammannlegur eiginleiki óháður tíma og rúmi. Öðru máli gegnir með talmálið. Ef máltakan væri okkur eðlislægur, meðfæddur eiginleiki, þá væri um að ræða tegundareinkenni mannsins og tegundin maður myndi þá tala eitt og sama tungumálið. Önnur málsgrein tilvitnunarinnar hittir naglan á höfuðið. Börn læra almennt að lesa texta með sínu lagi og áreynslulítið. Erfiðleikarnir koma upp þegar um skipulagða, tímasetta lestrarkennslu er að ræða. Þvinguð lestrarkennsla getur mistekist, lestrarnámið orðið óyfirstíganleg hindrun og sársaukafull reynsla, niðurstaðan kölluð lesblinda, sögð meðfædd og ættgeng. Slík reynsla markar alla skólagöngu og skerðir lífsgæði. Niðurlæging, auðmýking og sársauki tengjast texta og lestri, þau tapa og hlíta dómi. Tapararnir forðast texta og lestur, reyna að fela vanmátt sinn og forðast að láta reyna á þennan meinta ágalla. Lesblinda er lestrarfælni fóbía HHFS barna vegna sársaukafullrar, auðmýkjandi lestrarkennslu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mega ráðherrar ljúga?
19.12.2014
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)