Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014
Lesblinda - hvað er til ráða?
13.1.2014
Það gerðist vestur í Bandaríkjunum fyrir tæpum sextíu árum að 12 ára einhverfur drengur var úrskurðaður fáviti. Hann skoraði 40 stig á greindarprófi. Hann var ekki talandi en hafði þó gengið í skóla í fimm ár!
Að þessari greiningu fenginni var skólinn laus við hann, hann var ekki kennsluhæfur.
Móðir hans ákvað að hafa hann heima og varð hann mjög sjálfala næstu árin. Um þetta leyti er hann að vaxa út úr einhverfunni, braggast mjög félagslega, er hjálpsamur og verklaginn.
Sautján ára gamall fer hann aftur í greindarpróf og skorar þá 137, - er þá orðinn afburða greindur!
Er þá tekið til við að kenna honum að tala og lesa. Talkennslan gekk upp en lestrarkennslan misheppnaðist. Var honum þá tjáð að hann væri með heilaskaða og myndi aldrei geta lært að lesa eða skrifa eins og venjulegt fólk. Því trúði hann næstu tuttugu árin. Hann naut velgengni sem verkfræðingur, (vottaður), í viðskiptalífi og sem listamaður. Hann vann markvisst að því að bæta orðaforða sinn og málskilning, en lesblindan var leyndarmálið hans. Tuttugu og sjö ára gamall skoraði hann 169 á greindarprófi!
Haustið 1980 uppgötvar hann að hann muni ekki vera með heilaskaða, heldur sé hann með heila sem hann kunni ekki að nota! Í framhaldi af þessari uppgötvun tekst honum, með hugrænni ögun, að ná tökum á lestrinum. Nokkru síðar er komið á fót rannsóknarhópi, sem undir stjórn doktors í námssálarfræði þróar aðferð til þess að leiðrétta lesblindu. Rannsóknar- og þróunarvinnan tekur um hálft annað ár en það er fyrst tólf árum síðar sem gefin er út bók um aðferðina.
Bókin nefnist The Gift of Dyslexia undirtitill Why some of the smartest people can´t read and how they can learn. Höfundar Ronald D. Davis og Eldon M. Braun. (Á íslensku Náðargáfan lesblinda.)
Þessi aðferð við að leiðrétta lesblindu nefnist Davis lesblinduleiðrétting.
Við þróun Davis kerfisins kom ýmislegt merkilegt í ljós. Til dæmis að lesblindir virðast almennt hnjóta um tiltekin smáorð þegar þeir eru að glíma við lestur. Þessi orð eiga það sameiginlegt að vera myndlaus. Það kom einnig í ljós að þeir, sem verða lesblindir, eiga það sameiginlegt að hugsa í myndum. Það þýðir, að þegar þeir rifja upp liðna atburði og reynslu, þá sjá þeir atburðina fyrir sér í huganum eins og þeir sáu þá gerast. Þeir geta þannig kallað fram í huga sér og horft á myndir af því, sem þeir hafa áður séð og upplifað. Líklegt er að fæst okkar njóti þeirra forréttinda að geta hugsað þannig í myndum.
Hugsun með orðum eins og að tala við sjálfan sig í huganum skilar aðeins tveimur til þremur einingum/orðum á sekúndu, en myndhugsuður sér 25 myndir á sekúndu. Hljóðræn hugsun er staðsett í vinstra heilahveli en myndræn hugsun í því hægra og þeir sem hugsa í myndum njóta því meiri virkni hægra heilahvels en almennt gerist og eru lesblindir gjarnan verklagnir, listrænir, frjóir og skapandi. Það má líka orða það svo, að lesblindir séu læsari en aðrir á flesta hluti aðra en texta á blaði.
Myndhugsuðir eru því ekki lesblindir, þeir lesa umhverfið öðrum betur en þegar þeir koma í skóla og kemur að því að kenna lestur á bók; kenna þeim bókstafi, nöfn þeirra og hljóð, og beita síðan hljóðaaðferð, þá getur svo farið að aðferðin skili ekki árangri. Vandamálið er síðan skilgreint með lesgreiningarprófi, sem staðfestir það sem vitað var, að barnið getur ekki lesið og gefur marglsungnar fræðilegar skýringar á þessum vanda barnsins sem nefnist lesblinda. Lesblindan er sögð meðfædd, jafnvel ættgeng og ólæknandi.
Myndhugsandi börn eru mjög viðkvæm fyrir kennsluaðferðum og eigi lestrarkennsla þeirra að ganga upp, þá verður hún að fara fram á öryggissvæði þeirra og byggja á reynslu þeirra og myndrænum hæfileikum. Að kenna lestur má ekki snúast um það að teyma ráðvillt og ringlað barn um framandi slóðir merkingarlausra kennileita.
Börn lærir tungumálið í tveimur áföngum. Fyrst læra þau hljóðmyndir eigin merkingarmynda/reynslu, læra að nefna hluti og atburði sem þau varðveita í reynslubankanum.
Síðan læra þau hvernig orðin, sem þau geta sagt, líta út - hvernig það, sem þau hafa upplifað og geta sagt frá, er skrifað.
Máltakan gengur þá þannig að merkingarmyndir reynslunnar öðlast hljóðmyndir tungumálsins og þessar hljóðmyndir merkingarmyndanna eru síðan varðveittar í rituðu máli. Orð málsins eiga sér þannig þrjár myndir, merkingarmynd, hljóðmynd og sjónmynd.
Þegar börn þekkja sjónmyndir þeirra orða, sem þau hafa á valdi sínu og eiga innistæðu fyrir í reynslubankanum, þá hafa þau lært að lesa.
Með Davis aðferðinni er hægt að kenna þeim að lesa sem hljóðaaðferðin gefst upp á og sendir frá sér sem lesblinda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það stendur í fræðibók um lesblindu, kenningar og mat að flestir með lesblindu hafi fæðst með hana. Lesblindan sé ýmist þroskatengd og meðfædd eða áunnin og stafi þá af slysum eða veikindum. Þetta getur ekki verið rétt. Lesblinda getur ekki verið meðfædd, - og þá ekki heldur ættgeng.
Lestur er lærð athöfn og lesblinda er því nafn yfir þá stöðu sem upp kemur þegar kennarinn skilar frá sér kennslu en nemandinn nær ekki að læra það sem til er ætlast. Nú er það svo að lestrarfræðingar í okkar menningarheimi aðhyllast almennt svokallaða hljóðaaðferð við lestrarkennslu. Bent er á ágæti aðferðarinnar; nær öllum börnum reynist hún vel þó fáeinir ná ekki tökum á lestrinum, - en þeir hafi fæðst lesblindir. Þarna er öllu snúið á haus. Það er ekki rétt að þú náir ekki tökum á lestri með hljóðaaðferð vegna þess að þú sért lesblindur, - kennsluaðferðin veldur því að þú nærð ekki tökum á lestri þegar til þess er ætlast og verður því sagður lesblindur. Lesblindan er afleiðing árangurslausrar lestrarkennslu en ekki orsök. Athöfnin kennarans, kennslan, nær ekki að virkja nemandan til náms. Trúlega vegna þess að það, að hljóðsetja bókstafi og hljóða síðan orðið, er ekki lestur.
Forsendur lesblindunnar eru ávallt þær sömu. Öðru máli gegnir með útfallið eða birtingarmyndina. Birtingarmyndir lesblindunnar eru trúlega jafn margar og tilfellin. Margir telja því, að til séu margar útgáfur af lesblindu en eru þá að meta birtingarmyndirnar sem ólíkar gerðir lesblindunnar.
Hugsum okkur dreng í 4. bekk. Hann er greindur lesblindur. Lestrarkennslan hefur litlu sem engu skilað. Hann hefur verið í sérkennslu í lestri frá því í fyrsta bekk. Hann þekkir ekki alla stafina af öryggi. Hann er mjög bundin í hljóðun bókstafanna og mikil orka fer í að hljóða sig í gegn um orð og renna hljóðunum síðan í orðmyndina. Hann les myndskreytt léttlestrarefni með eins og tveggja atkvæða orðum sí endurteknum. Lestrarþjálfunin snýst um það að muna réttu hljóð stafanna og finna svo út hljóðmyndir orðanna. Staðan í lestrinum er farin að hafa veruleg áhrif á almenna líðan í skólanum.
Í 10. bekk er mögulegt að okkar maður sé laus úr sérkennslu, (23,6% grunnskólanema eru þó enn í sérkennslu í 10. bekk), geti lesið 2-300 atkvæði.
En, hann upplifir ekki það sem hann les, og það sem þú upplifir ekki getur þú ekki hugsað um, ekki skilið, ekki munað og það getur ekki orðið þér að gagni.
Hann er sagður læs, en lesskilningur mjög lélegur.
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands um sérkennslu í skólum landsins skólaárið 2011-2012 eru 27,5% grunnskólanema í sérkennslu eða 11.656 af 42.365. Sérkennslan er nokkuð svipuð í öllum árgöngum, eða frá 23,6% í fyrsta og tíunda bekk, upp í 30,4% í fjórða bekk. Ekki verður ráðið af tölum Hagstofunnar að umfangsmikil sérkennsla í yngri bekkjum skili miklum árangri, þar sem hlutfall sérkennslunemenda er nánast óbreytt upp allan grunnskólann. Ennfremur má nefna sem dæmi að í áttunda bekk eru1060 nemendur, eða 24,8% árgangsins í sérkennslu, en þegar þessi árgangur var í fyrsta bekk voru 17,3%, eða um 740 nemendanna í sérkennslunni. Þá er það athyglisvert að í fyrsta bekk, þar sem 1007 nemendur eru í sérkennslu, eru 595 án greiningar á þeim vanda sem þá sérkennslan ætti að bæta úr. Af alls 11.656 sérkennslunemendum eru 5438 eða 46,7% án greiningar á vanda sínum.
Ætla má að verulegur hluti sérkennslu sé til kominn vegna lestrarkennslu. Ef lestrarkennsla gengur ekki upp hjá 20-30% nemenda í almennri bekkjarkennslu er gripið til sérkennslu í minni hópum eða einstaklingskennslu. Ef sérkennslan skilar ekki betri árangri en tölur Hagstofunnar og mat á lestrarstöðu 15 ára unglinga í Reykjavík vitna um, þá er eðlilegt að efast um lestrarkennsluna, gildi og réttmæti þeirrar aðferðar sem beitt er.
Við blasir að lestrarkennsla með hljóðaaðferð skilar ekki viðunandi árangri í almennri bekkjarkennslu. Þeir nemendur, sem ekki ná valdi á lestri, eru sendir í sérkennslu í minni hópum eða einir með kennara. Nýjar aðstæður, ný umgjörð, en sama kennsluaðferð, hljóðaaðferðin. Árangur áfram óviðunandi, allt að fjórðungur nemenda enn í sérkennslu í tíunda bekk og allt að fjórðungur drengja og einn tíundi stúlkna geta þá enn ekki lesið sér að gagni.
Fyrir rúmum 30 árum var gerð stórmerk uppgötvun vestur í Bandaríkjunum. Hugmyndaríkur og lesblindur verkfræðingur og listamaður fann leið út úr lesblindunni. Rannsóknarhópur, undir stjórn doktors í námssálarfræði, þróaði verkferli sem reynst hefur mjög vel við að leiðrétta lesblindu, jafnt barna sem unglinga og fullorðinna. Út frá þessari aðferð og með aðstoð þeirra tækniundra sem nú auðvelda öll samskipti og þekkingaröflun sé ég þróast ný viðhorf og nýjar aðferðir í lestrarkennslu. Það er ekki ásættanlegt takmark að leiðrétta áföll misheppnaðrar lestrarkennslu skólakerfisins, takmarkið er að öll lestrarkennsla skili viðunandi árangri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)