Lestrarkennsla

Geta allir lært að lesa? - Þarf að kenna lestur? - Getur enginn lært að lesa án lestrarkennslu? 
Lærum við allt sem okkur er kennt og þarf að kenna okkur allt sem við lærum? Eru kennsla og nám tvö sjónarhorn á sama hlutinn? Nei, auðvitað er það ekki svo. Kennsla og nám eru tveir ólíkir hlutir. Það, sem við samþykkjum sem kennslu, þarf ekki endilega að leiða af sér nám. Kennarinn, sem sinnir vinnu sinni, fær greitt fyrir þó svo nemandinn læri ekki neitt.
Allir vita, að börn geta lært að lesa án þess að nokkur kenni þeim lesturinn og einnig það, að börn geta notið lestrarkennslu daglega inni í bekk og oft í viku í sérkennslu, jafnvel árum saman, hjá færustu sérfræðingum, án þess að ná neinum viðunandi tökum á lestrinum.
Þegar nemandinn nær ekki árangri í lestri, þrátt fyrir alla fyrirhöfn færustu sérfræðinga árum saman, hvar gagnreyndum kennsluaðferðum er beitt, vandast málið. Greina verður vandann og leita lausna. Liggur vandinn hjá kennaranum, kennsluaðferð og efni eða nemandanum? Kennarinn er sérmenntaður, kennsluaðferðin er gagnreynd - en nemandinn, er hann þá ekki lesblindur. Sérfræðingar, sem kenna í háskólum og kenna kennurum grunnskólanna, hafa búið til aðferðir eða próf, sem sýna hvað er að þeim nemendum, sem geta ekki lært að lesa með gagnreyndum kennsluaðferðum sem eru þær einu réttu að þeirra mati. Niðurstaðan er gjarnan sú, að nemandinn sé með einhvers konar lesblindu, sem er svo nánar útlistuð.

Ég tel að allir geti lært að lesa og það þurfi ekki einu sinni formlega lestrarkennslu til. Meira en það, trúlegt er að ef engin væri lestrarkennslan þá þekktist ekki fyrirbærið lesblinda. Lesblinda er það kallað þegar lestrarkennsla (sér)menntaðra kennara með gagnreyndum aðferðum skilar nemandanum engum eða óviðunandi árangri í lestri. Nemandinn er þá sagður lesblindur. Árangursleysið alfarið skráð á nemandann, lesblindunni líkt við fatlandi sjúkdóm, sögð meðfædd og jafnvel ættgeng. Sá, sem er fæddur lesblindur, verði það alla ævi en með alls kyns rafrænum hækjum og hátæknibúnaði megi bæta fyrir þennan meðfædda ágalla og gera honum lífið bærilegt. Hann muni þó aldrei standa jafnfætis okkur hinum.
Þetta er skelfilegt - sakfelling fórnarlambsins. Öllu snúið á hvolf. Skili lestrarkennsla ekki árangri er öðru um að kenna en nemandanum. Öll kennsla á að vera leiðsögn til aukinnar þekkingar og skilnings og verður að miðast við forsendur nemandans, að öðrum kosti er tvísýnt um árangur. Á það einnig við um lestrarkennslu. Skili lestrarkennsla ekki ætluðum árangri þá hentar hún ekki nemandanum, svarar ekki þörfum hans. Til þess að ná árangri verður að laga kennsluna að forsendum nemandans, bæði verklag sem og viðfangsefni og gæta þess að hvort tveggja hæfi þroska hans, reynslu, áhuga og ekki síst námsstíl.
Það gengur aldrei upp að kenna öllum nemendum fæddum á sama ári sömu hluti á sama tíma með sömu aðferðum og æltast til þess að allir skili sama árangri! Slíkt verklag má með réttu kalla einelti. Eineltið bitnar á þeim nemendum sem tolla ekki á færibandinu, passa ekki í kassana. Með stöðluðum greinandi - hvað - er - að - nemandanum - prófum framleiðir kerfið sannanir um vanhæfni og ágalla þeirra nemenda, sem með þessu verklagi eru sviknir um kennslu við hæfi.
Þeir sem flýja inn á víðar lendur hugans og dvelja í dagdraumum, eru greindir með athyglisbrest, geti þeir ekki á sér setið og flandri um öðrum til ama eru þeir greindir ofvirkir og þeir, sem ekki ná valdi á lestri á tilteknum tíma með tilteknum aðferðum, eru greindir lesblindir. Eru þetta sagðir meðfæddir kvillar, jafnvel ættgengir og ólæknandi. Ekkert af þessu stenst.
Rétt er að greina má vanlíðan þessara barna og oft óæskilega hegðun. En skýringin er sú að þau fá ekki notið stjórnarskrárvarins réttar síns. Þau fá ekki notið þeirrar verndar og umönnunar sem velferð þeirra krefst né heldur er þeim tryggður réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Samkvæmt 76. grein stjórnarskrárinnar skal í lögum tryggja öllum verndina og réttinn. Væri þessum nemendum tryggður stjórnarskrárvarinn réttur þeirra myndu þeir blómstra. Í stað kvilla fyndust nú hæfileikar og í stað vandamála kæmu afrek. Þeir myndu skara framúr á mörgum sviðum, í íþróttum, listum, í viðskiptum, verklegum athöfnum og mannlegum samskiptum. Þeir væru frumkvöðlar, áræðnir og skapandi athafnamenn, óhræddir að fara út fyrir rammann. Og þeir gætu lesið, lesblinda er nefnilega ekki meðfæddur kvilli. Lesblinda er nafnið sem gefið er niðurstöðu ótímabærrar lestrarkennslu, utan áhugasviðs og með óviðeigandi aðferðum.

Sumarið áður en Ari litli átti að byrja í skólanum sagðist hann ekki geta farið í skóla, hann kynni ekki að lesa. Fortölur foreldra hjálpuðu ekki. Nokkru síðar segir hann þetta verði í lagi, hann væri búinn að læra að lesa. Hvernig fór hann að? Jú, foreldrar hans höfðu lesið Andrés Önd fyrir hann einhver misseri og nú fór hann í Andrésblöðin og tengdi saman athafnir, yrðingar og texta - í þessari röð. Þannig lærði hann að lesa.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband