Er lesblinda í ættinni?
25.11.2014
Lestrarfræðingar Háskóla Íslands segja okkur að lestur sé ekki eðlislægur, meðfæddur eiginleiki, heldur lærð aðgerð og að því leyti gjórólíkur máltökunni. Með máltöku er þá væntanlega átt við það að verða talandi. Að verða talandi er þá sagður eðlislægur eiginleiki, eitthvað sem ekki þarf að læra, eitthvað sem er okkur áskapað og meðfætt. Lesturinn aftur á móti segja þeir vera lærða aðgerð, færni sem ekki er meðfædd eða eðlislæg, færni sem verður að kenna og læra. Ég held að þetta geti ekki staðist. Máltakan, sem það að verða talandi, getur varla verið eðlislægur meðfæddur eiginleiki en lesturinn einhver eðlislega óskyld aðgerð eða færni sem þarf að læra. Tungumálið er okkur ekki meðfæddur eiginleiki sem við uppgötvum í fyllingu tímans, tungumálið er uppfinning, manngert verkfæri hannað til samskipta. Við tjáum hug okkar með hljóðmyndum, töluðu máli, og varðveitum síðan hljóðmyndirnar með sjónmyndum, rituðu máli. Ég held því fram að máltakan rúmi það að skilja mælt mál og ritað og geta tjáð sig í ræðu og riti. Að verða talandi og það að verða læs séu því tvö stig máltökunnar. Börn læra að tala í samskiptum við fjölskyldu og vini og almennt án formlegrar kennslu. Framvinda námsins ræðst mjög af atgervi nemandans og tekur það börn mislangan tíma að verða altalandi, sem alkunna er og lítt um fengist. Lestrarkennslan er aftur á móti formleg, skipulögð og á höndum sérfræðinga, alvöru kennsla og árangur mældur reglulega. Við lestrarkennslu virðist mun síður tekið mið af atgervi nemandans, mjög lagt upp úr því að ná settum aldurstengdum markmiðum á tilsettum tíma og gangi það ekki eftir er hafin rannsókn á nemandanum og leit að meðfæddum ágöllum, svo sem lesblindu eða athyglisbresti. Tungumálið er sem sagt uppfinning, verkfæri, sem verður til við mannleg samskipti, til mannlegra samskipta og vex og þróast við notkun. Hvað nú ef tungumálið væri mannkyni eðlislægur, meðfæddur eiginleiki, sem vöxtur og þroski kveikti, rétt eins og skynfærni eða kynþroska, myndu þá ekki allir jarðarbúar tala eitt og sama tungumálið? Nei, tungumálið er ekki eðlislægur meðfæddur eiginleiki, það er manngert verkfæri sem finnst í mörg þúsund mismunandi útfærslum. Þjóðerni okkar og málumhverfi ræður því á hvaða tungumáli við verðum talandi og getum við síðan lært fleiri tungumál eftir þörfum. Af nógu er að taka. En hvað veldur því að sumir eiga erfitt með að læra að lesa? Áttu þeir líka erfitt með að læra að tala? Nei, þeir sem sagðir eru lesblindir eru almennt vel máli farnir. Engir erfiðleikar með mælt mál, hljóðun eða hljóðkerfi. Er þá eðlismunur á hlustun og tali annars vegar og lestri og ritun hins vegar, að læra að tala og að læra að lesa? Er lestur þá gjörólíkur máltökunni? Nei, lesturinn er lokakafli máltökunnar en það er eðlismunur á kennsluaðferðum sem almennt tíðkast við talkennsluna annars vegar og lestrarkennsluna hins vegar. Talkennslan er óformleg, tekur mið af þroska nemandans, fer fram á öryggissvæði hans og stjórnast af hlýju, hvatningu og hrósi fjölskyldu og umhverfis; lestrarkennslan er formleg, tekur mið af fæðingardegi nemandans, fer fram utan öryggissvæðisins og stjórnast af kröfum, ögun og aðfinnslum kerfisins. Börnin, sem ná ekki að nýta sér aðferðir lestrarkennslunnar við framandi aðstæður, verða ringluð, hrædd og kvíðin og árangursleysið er kallað lesblinda og sagt meðfæddur, ættgengur og ólæknandi kvilli. Ég held því fram að lesblinda sé ekki meðfædd, ekki ættgeng og ekki ágalli, lesblinda sé nafn yfir afrakstur misheppnaðrar lestrarkennslu. Athyglinni er beint að nemandanum, hvað sé að honum, hvort lesblinda finnist í ættinni í stað þess að líta á framkvæmdina; tíma, (aldur nemandans), staðsetningu, (utan öryggissvæðisins), kennsluaðferðir, (hljóðlestur), kennslugögn, (tvívíð tákn og texta). Við vitum að sumir hugsa í þrívíðum myndum; sjá myndir í huga sér eins og þeir séu að horfa í kringum sig, aðrir hugsa í orðum; tala nánast við sjálfa sig í huganum og stundum heyrum við þá hugsa upphátt. Þeir, sem hugsa í myndum, eiga gjarnan erfitt með að læra lestur með þeim aðferðum, sem almennt eru notaðar í skólum. Hljóðmyndir einstakra tákna, (bókstafa), rugla þá í ríminu, hljóðmyndir orða eru merkingarlausar án tengingar við myndræna reynslu og festast því illa í minni. Viðvarandi árangursleysi og mistök valda vanlíðan og kvíða, brjóta niður sjálfstraust og ekki bætir það úr ef nemandinn fer í sérkennslu 2-3 í viku úr þeim tímum þar sem hann stendur sig annars best. Niðurstaðan af þessu verklagi er sögð meðfædd lesblinda. Eftir 10 ára basl í gegnum grunnskólann er þriðjungur drengja ófær um að lesa sér að gagni. Þeir eru ekki þjakaðir af meðfæddri, ættgengri lesblindu, þeir eru þjakaðir af lesfælni, lesfobíu eftir kvíðann, kvölina, auðmýkinguna og niðurlæginguna sem þeir hafa orðið að þola á þrautagöngu sinni gegnum grunnskólann. Meðfæddir ágallar verða ekki bættir en veitta áverka má græða og lesblindir geta sannarlega lært að lesa.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.