Lesblinda - hvað er til ráða?
13.1.2014
Það gerðist vestur í Bandaríkjunum fyrir tæpum sextíu árum að 12 ára einhverfur drengur var úrskurðaður fáviti. Hann skoraði 40 stig á greindarprófi. Hann var ekki talandi en hafði þó gengið í skóla í fimm ár!
Að þessari greiningu fenginni var skólinn laus við hann, hann var ekki kennsluhæfur.
Móðir hans ákvað að hafa hann heima og varð hann mjög sjálfala næstu árin. Um þetta leyti er hann að vaxa út úr einhverfunni, braggast mjög félagslega, er hjálpsamur og verklaginn.
Sautján ára gamall fer hann aftur í greindarpróf og skorar þá 137, - er þá orðinn afburða greindur!
Er þá tekið til við að kenna honum að tala og lesa. Talkennslan gekk upp en lestrarkennslan misheppnaðist. Var honum þá tjáð að hann væri með heilaskaða og myndi aldrei geta lært að lesa eða skrifa eins og venjulegt fólk. Því trúði hann næstu tuttugu árin. Hann naut velgengni sem verkfræðingur, (vottaður), í viðskiptalífi og sem listamaður. Hann vann markvisst að því að bæta orðaforða sinn og málskilning, en lesblindan var leyndarmálið hans. Tuttugu og sjö ára gamall skoraði hann 169 á greindarprófi!
Haustið 1980 uppgötvar hann að hann muni ekki vera með heilaskaða, heldur sé hann með heila sem hann kunni ekki að nota! Í framhaldi af þessari uppgötvun tekst honum, með hugrænni ögun, að ná tökum á lestrinum. Nokkru síðar er komið á fót rannsóknarhópi, sem undir stjórn doktors í námssálarfræði þróar aðferð til þess að leiðrétta lesblindu. Rannsóknar- og þróunarvinnan tekur um hálft annað ár en það er fyrst tólf árum síðar sem gefin er út bók um aðferðina.
Bókin nefnist The Gift of Dyslexia undirtitill Why some of the smartest people can´t read and how they can learn. Höfundar Ronald D. Davis og Eldon M. Braun. (Á íslensku Náðargáfan lesblinda.)
Þessi aðferð við að leiðrétta lesblindu nefnist Davis lesblinduleiðrétting.
Við þróun Davis kerfisins kom ýmislegt merkilegt í ljós. Til dæmis að lesblindir virðast almennt hnjóta um tiltekin smáorð þegar þeir eru að glíma við lestur. Þessi orð eiga það sameiginlegt að vera myndlaus. Það kom einnig í ljós að þeir, sem verða lesblindir, eiga það sameiginlegt að hugsa í myndum. Það þýðir, að þegar þeir rifja upp liðna atburði og reynslu, þá sjá þeir atburðina fyrir sér í huganum eins og þeir sáu þá gerast. Þeir geta þannig kallað fram í huga sér og horft á myndir af því, sem þeir hafa áður séð og upplifað. Líklegt er að fæst okkar njóti þeirra forréttinda að geta hugsað þannig í myndum.
Hugsun með orðum eins og að tala við sjálfan sig í huganum skilar aðeins tveimur til þremur einingum/orðum á sekúndu, en myndhugsuður sér 25 myndir á sekúndu. Hljóðræn hugsun er staðsett í vinstra heilahveli en myndræn hugsun í því hægra og þeir sem hugsa í myndum njóta því meiri virkni hægra heilahvels en almennt gerist og eru lesblindir gjarnan verklagnir, listrænir, frjóir og skapandi. Það má líka orða það svo, að lesblindir séu læsari en aðrir á flesta hluti aðra en texta á blaði.
Myndhugsuðir eru því ekki lesblindir, þeir lesa umhverfið öðrum betur en þegar þeir koma í skóla og kemur að því að kenna lestur á bók; kenna þeim bókstafi, nöfn þeirra og hljóð, og beita síðan hljóðaaðferð, þá getur svo farið að aðferðin skili ekki árangri. Vandamálið er síðan skilgreint með lesgreiningarprófi, sem staðfestir það sem vitað var, að barnið getur ekki lesið og gefur marglsungnar fræðilegar skýringar á þessum vanda barnsins sem nefnist lesblinda. Lesblindan er sögð meðfædd, jafnvel ættgeng og ólæknandi.
Myndhugsandi börn eru mjög viðkvæm fyrir kennsluaðferðum og eigi lestrarkennsla þeirra að ganga upp, þá verður hún að fara fram á öryggissvæði þeirra og byggja á reynslu þeirra og myndrænum hæfileikum. Að kenna lestur má ekki snúast um það að teyma ráðvillt og ringlað barn um framandi slóðir merkingarlausra kennileita.
Börn lærir tungumálið í tveimur áföngum. Fyrst læra þau hljóðmyndir eigin merkingarmynda/reynslu, læra að nefna hluti og atburði sem þau varðveita í reynslubankanum.
Síðan læra þau hvernig orðin, sem þau geta sagt, líta út - hvernig það, sem þau hafa upplifað og geta sagt frá, er skrifað.
Máltakan gengur þá þannig að merkingarmyndir reynslunnar öðlast hljóðmyndir tungumálsins og þessar hljóðmyndir merkingarmyndanna eru síðan varðveittar í rituðu máli. Orð málsins eiga sér þannig þrjár myndir, merkingarmynd, hljóðmynd og sjónmynd.
Þegar börn þekkja sjónmyndir þeirra orða, sem þau hafa á valdi sínu og eiga innistæðu fyrir í reynslubankanum, þá hafa þau lært að lesa.
Með Davis aðferðinni er hægt að kenna þeim að lesa sem hljóðaaðferðin gefst upp á og sendir frá sér sem lesblinda.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.