... virðingu fyrir manngildi ...

Í umræðum um skólamál bregður oft fyrir hugtakinu skólastefna. Hvað er eiginlega skólastefna? Er stefna í skólamálum viðhorf eða skoðun á því hver séu innstu rök uppeldis- og fræðslumála? Er skólastefna spurningin um fjármögnun og forgangsröðun verkefna þegar kemur að byggingum og búnaði? Eða er skólastefna spurningin um menntun og kjaramál kennara?
Þá má einnig spyrja hvort samkomulag geti ríkt um framkvæmdir og leiðir skólastefnu, sem ekki tekur skýrt á forsendum og markmiðum?

Hvað segja stjórnarskráin og grunnskólalögin um skyldur framkvæmdavaldsins við börn og unglinga, skólastefnu lýðveldisins?

Í 76. grein stjórnarskrárinnar segir m.a.: ” Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi,” og ennfremur, ” Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.”
Í markmiðsgrein grunnskólalaga segir m.a.: ” Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Þá skal grunnskólinn leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.”

Mér sýnist skólastefna stjórnarskrárinnar og grunnskólalaganna ágætlega skýr, en framkvæmd grunnskólalaganna aðeins í hóflegu samræmi við þá ágætu stefnu. Draumsýn þessara lagatexta virðist enn töluvert undan veruleika daglegs skólastarfs. Fyrirheitin, sem birtust í vísindahyggju grunnskólalaga nr. 63/1974, urðu að engu með lagabreytingunum um og eftir 1990. Ætla má að ákveðið stefnuleysi í skipulagi sérfræðiþjónustu grunnskólanna valdi miklu um það hve fyrirheit og framkvæmd virðast hafa fjarlægst hvort annað.

Skólinn, sem við flytjum inn frá öðrum þjóðum, er hannaður til þess að gæta barna, eyða ólæsi og sameina þjóðarbrot. Sú samfélagsmynd sem skóp verkfærið var órafjarri íslenskum veruleika og því vandséð að þess væri hér þörf.
Við stofnum til skólahalds að erlendri fyrirmynd, með verkfæri til þess ætluðu að leysa vanda sem ekki var til á Íslandi. Má þá segja að íslenskt skyldunám grundvallað á misskilningi?
Skyldunámi er ætlað að annast grunnmenntun þegnanna.
Grunnmenntun opnar aðgengi að uppruna og menningu, fortíð og sögu. Grunnmenntun er uppeldisleg menntun og mótun fyrir lífið. Þetta hlutverk rækti íslenskt samfélag um aldir – án barnaskóla.
Hvert varð þá hlutverk íslenska skyldunámsins? Annaðist íslenski skólinn þá í raun einhvers konar framhaldsmenntun? Mótaðist viðfangsefni skólans af tíðarandanum; atvinnuþróun, verkmenningu og auknum tengslum og samskiptum við aðrar þjóðir? Opnaði skólamenntunin aðgengi að áður óþekktum störfum?
Er hér að finna meginskýringuna á því að íslenska skólakerfið hefur aldrei viðurkennt eðlismun á grunnmenntun og framhaldsmenntun?

Nú virðist gengið út frá því að aðeins sé stigsmunur á störfum grunnskóla og framhaldsskóla en það er eðlismunur á grunnmenntun og framhaldsmenntun, menntun fyrir lífið og menntun fyrir tiltekin störf. Nauðsynlegt er að viðurkenna og virða þennan eðlismun við skipan og þróun beggja skólastiga til þess að ná sem bestum árangri í uppeldis – og menntamálum þjóðarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband