Er sérkennsla markviss úrbót eða stjórnlaus sóun?

Sérkennslu er þörf vegna skilgreinanlegs ástands eða aðstæðna nemanda sem valda því að hann getur ekki mætt almennum kröfum grunnskólans og nýtt sér þá kennslu sem öllum stendur til boða.

Sérkennsla felur í sér sérstök námsmarkmið, sem reynt er að nálgast með annars konar námsferli og námsefni og stefnir að öðrum þekkingarlegum og getulegum niðurstöðum en gerir almenn kennsla. Sérkennsla er sérstök kennsla, frábrugðin almennri kennslu um markmið og leiðir, innihald sem árangur, (niðurstöðu).

 

         Sá skilningur liggur hér að baki að almenn kennsla leiði ávallt til almennrar menntunar en að sérkennsla til öðruvísi menntunar, sérstakrar menntunar. Ljóst er að námsárangur nemenda er misjafn, þeir ná misgóðum tökum á almennu námsefni, sumir sýna jafnvel alls óviðunandi árangur. Um slíka niðurstöðu má aldrei fjalla sem sérkennslu, (sérstaka menntun), eða á þann veg að nemandinn hafi með henni komið sér upp sérkennsluþörf, þ.e. þurfi á sérkennslu, (sérstakri kennslu), að halda til þess að ná viðunandi tökum á almennu námsefni.

         Þessi nemandi þarf ekki sérkennslu, hann hefði þurft meiri og betri almenna kennslu en þarfnast nú aðstoðar og endurvinnslu, aukakennslu, hjálpar- eða stuðningskennslu.

Í grunnskólalögunum nr. 63/1974 var ráðgjafar- og sálfræðiþjónustunni ekki einungis ætlað að greina fötlun nemenda svo þeir gætu notið lögboðinnar sérkennslu, heldur einnig með greiningarstörfunum, rannsóknum og ráðgjafarstörfum  að fyrirbyggja og forða því að ófatlaðir nemendur, sem kynnu að eiga í tímabundnum erfiðleikum, væru sendir í sérkennslu, jafnvel til frambúðar.

         Stefnumörkun grunskólalaganna, (nr. 63/1974), í sérkennslumálum var skýr.  Þeir nemendur, sem vegna fötlunar sinnar geta ekki notið venjulegrar kennslu, eiga rétt til sérstakrar kennslu við sitt hæfi. Það er sérkennsla; önnur markmið, ólíkt námsefni, umgjörð og aðferðir. Af þessu leiðir að sérkennsla er ekki aðferðin til að tryggja ófötluðum nemendum viðunandi árangur í almennu grunnskólanámi.

Hvað er þá sérkennsluþörf? 

Í þrengstu merkingu er átt við það, að einhver skilgreinanleg ástæða valdi því að nemandinn sé ófær um að tileinka sér námsefni almennrar grunnskólakennslu á viðunandi hátt og sér að gagni. Sérstök kennsla, sérkennsla, er þeim nauðsyn og eina leiðin til að tryggja þeim þann þroska sem er þeim mögulegur. Þá fyrst njóta þeir jafnréttis í námi að þeim sé svo mismunað að viðfangsefni séu við þeirra hæfi en ekki þau sömu og annarra. Á þann einn hátt sjá þeir árangur erfiðis síns, upplifa sigra og öðlast sjálfstraust. Þessir nemendur þarfnast raunverulega sérkennslu vegna fötlunar sinnar og til að tryggja lagalegan rétt þeirra til kennslu „ ... í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda...“ er stuðli að „ ... alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins ...“ verður að halda fast við þessa þröngu skilgreiningu hugtaksins sérkennsla.

En framkvæmdin hefur orðið önnur. Allt frá níunda áratugnum er áhrifa grunnskólalaga og viðeigandi reglugerða fer að gæta, hafa stjórnvöld sem og skólar sveigt frá fyrirmælum grunnskólalaganna nr. 63/1974 einkum er varðar greiningar verðandi sérkennslunemenda.

Er nú svo komið að tæp 30% grunnskólanema eru í sérkennslu og um helmingur þeirra án formlegrar greiningar!

Á níunda áratugnum þótti það óhæfa að ætlast til sérkennslu fyrir 2-3% nemenda jafnvel þótt greiningar á vanda þeirra lægju fyrir. 

Nú er svo komið að fötluðu sérkennslubörnin, 3-4 prósentin, verða kaffærð af fimm til sexföldum fjölda sínum af „sérkennslunýbúum,“ sem ekki eru fatlaðir, en eiga í erfiðleikum í námi, trufla, eru áberandi og þarfnast hjálpar.  Vandi þessara nemenda er annar en þeirra fötluðu. Samt er þörf þeirra fyrir einhvers konar aðstoð brýn og öflug aðstoð við slíkar aðstæður skilar nemandanum gjarnan vel áleiðis í námi og hefur sérkennslan þá ekki sannað gildi sitt?

Ef góður fjórðungur nemenda í almennu grunnskólanámi nær ekki að læra það sem allir þurfa að læra þá er eitthvað að. Skólinn bendir á nemandann; þarna er vandinn, þessi þarfnast sérkennslu. Slík „sérkennsla“ ber jafnan góðan árangur og með því að mæta sérkennsluþörf nemandans er henni jafnframt eytt!

En er rétt að aðgreina og stimpla um fjórðung nemenda sem verða fyrir því að misstíga sig í menntavalsinum? Erum við þá ekki refsa fórnarlambinu?

Hvað með að leita orsakanna og laga málið á forsendum nemandans?

Kalli viðunandi lausn á nýbreytni í skólastarfi þá er það vel. 

Við megum ekki sameinast um það að stefna framtíð saklausra barna í hættu með því að staðfesta þörf þeirra fyrir sérkennslu þegar allt sem þau þarfnast er sú almenna kennsla sem samfélagið hefur lofað þeim.

 

P.S.  Engin gögn liggja fyrir um heildarkostnað vegna sérkennslu, ráðuneyti menntamála hefur nú orðið lítil afskipti af framkvæmdinni og sveitarfélög ráða ekki við að skilgreina kostnað við þennan málaflokk sérstaklega! 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband